Tveimur sprengjudrónum var beint að herstöð Bandaríkjahers og bandamanna í Anbar-héraði í Írak í gær. Annar dróninn var skotinn niður af loftvarnakerfum en hinn komst lengra á veg og sprakk í herstöðinni.
Að sögn lögreglumanns sem fréttastofa-AFP ræddi við, en vildi ekki koma fram undir nafni, særðist enginn í árásinni. Þá olli sprengingin heldur engum skemmdum.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Árásin er framin á sama tíma og spennustigið á Mið-Austurlöndunum fer stigmagnandi vegna stríðsátaka á Gasa, milli Ísraela annars vegar, sem njóta stuðnings Bandaríkjastjórnar, og Hamas-samtakanna hins vegar, sem njóta stuðnings stjórnvalda í Íran.
Háttsettur embættismaður í Bagdad, höfuðborg Íraks, staðfesti einnig árásina við AFP. Taldi hann tilgang hennar vera að gera lítið úr stjórnvöldum í Írak og setja enn meiri þrýsting á viðræður um alþjóðasamstarf írakskra stjórnvalda.
Núverandi fyrirkomulag felur í sér að um 2.500 hermenn á vegum Bandaríkjanna eru með starfstöð í Írak og um 900 með starfstöð í Sýrlandi.
Bandalagið á rætur að rekja til ársins 2014 þegar að stjórnvöld í Írak óskuðu eftir aðstoð við að berjast gegn IS, sem höfðu sölsað undir sig víðfeðmt svæði í Írak og Sýrlandi.
Múslímska andspyrnuhreyfingin í Írak, sem nýtur stuðnings írakskra hópa, hefur staðið fyrir meira en 175 loftárásum á hersveitir í Írak og Sýrlandi, sem eru undir stjórn Bandaríkjamanna.
Að sögn hreyfingarinnar eru árásirnar gerðar til að sýna samstöðu með Palestínumönnum vegna stríðsins á Gasa. Er krafan sú að sókn Ísraela í Palestínu verði stöðvuð.
Í apríl var eldflaug skotið frá norðurhluta Íraks á herstöð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Sýrlandi
Í janúar féllu þrír bandarískir hermenn í loftárás á herstöð í Jórdaníu sem írakskir vígamenn eru sagðir vera á bak við.
Stjórnvöld í Írak hafa sóst eftir því að draga úr stigmögnun átaka, þar á meðal með viðræðum við bandarísk stjórnvöld.
Samkvæmt heimildum AFP mun sendinefnd á vegum írakskra stjórnvalda ferðast til Washington í Bandaríkjunum síðar í vikunni.