Varð sjálfum sér og fimm öðrum að bana með blásýru

Bollarnir og hitabrúsarnir sem taldir eru hafa innihaldið blásýru.
Bollarnir og hitabrúsarnir sem taldir eru hafa innihaldið blásýru. AFP/Thaílenska lögreglan

Eitt þeirra sex sem fundust látin á lúxushóteli í Bangkok, höfuðborg Taílands, í gær, er talið hafa eitrað fyrir þeim öllum með blásýru.

Þrjár konur og þrír karlar fundust látin síðdegis í gær í svítu á Grand Hyatt Erawan-hótelinu í Bangkok.

Þau voru af víetnömskum uppruna en tvö þeirra voru með bandarískan ríkisborgararétt. 

Grand Hyatt Erawan-hótelið í Bangkok.
Grand Hyatt Erawan-hótelið í Bangkok. AFP/Chanakarn Laosarakham

Glæpurinn tengist skuld 

„Við erum sannfærð um að eitt af þeim sex sem fundust látin hafi framið þennan glæp,“ sagði Noppasil Poonsawas, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Bangkok, á blaðamannafundi í dag.

Hann sagði einnig að lögreglan teldi að blásýra hefði verið notuð til að eitra fyrir fólkinu. Glæpurinn er talinn tengjast skuld upp á milljónir taílenskra batta. 

Thiti Sangsawang, lögreglustjóri í Bangkok, á blaðamannafundi í dag.
Thiti Sangsawang, lögreglustjóri í Bangkok, á blaðamannafundi í dag. AFP/Lillian Suwanrumpha

Blásýra í sex bollum

Fjöl­miðlar í Taílandi greindu upp­haf­lega frá því að skotárás hefði átt sér stað á hót­el­inu en lög­regla vísaði þeim frétt­um á bug og sagði að eng­ar vís­bend­ing­ar væru um skotárás.

Á myndum sem lögreglan birti má sjá líkin á víð og dreif um svítuna, en ekkert blóð. Einnig má sjá ósnertan mat og tvo hitabrúsa og bolla.

Fyrstu rannsóknir lögreglu leiddu í ljós að blásýra hefði verið í sex bollum. Líklegt þykir að fólkið hafi látist á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert