Fær þetta að setja í þína þvottavél?

Bernt Øivind Børnich, forstjóri norska hátæknifyrirtækisins 1X Technologies, bindur miklar …
Bernt Øivind Børnich, forstjóri norska hátæknifyrirtækisins 1X Technologies, bindur miklar vonir við framleiðslu sína. Flaggskipið Neo mun kosta á við ódýran bíl segir forstjórinn. Ljósmynd/1X Technologies

„Rétt eins og allir eiga snjallsíma munu allir eiga vélmenni,“ segir Bernt Øivind Børnich, forstjóri norska hátæknifyrirtækisins 1X Technologies í Moss í norska fylkinu Østfold, suður af Ósló. Hann ræðir við norska ríkisútvarpið NRK um framtíðarsýn sem ekki er örgrannt um að sumum þyki óhugnaður – öðrum spennandi.

Vissulega er 1X Technologies norskt fyrirtæki en starfsemi þess dregur að sér fjárfesta eins og mý á mykjuskán. Í mars í fyrra greindi Finansavisen frá því að bandarísk tæknifyrirtæki hefðu keypt hluti í 1X, þar á meðal fyrirtækið OpenAI með Sam Altman í fararbroddi sem hleypt hefur af stokkunum einni umdeildustu tækninýjung síðustu ára, gervigreindarvölvunni ChatGPT.

Fyrirsögn umfjöllunar NRK er „Bráðum getur vélmenni þvegið þvottinn þinn“, en sé framtíðarsýn 1X eitthvað í nágrenni við það sem verður raunveruleiki þeirrar framtíðar munu vélmenni 1X og fleiri fyrirtækja verða fær um mun flóknari verkefni en að setja í þvottavél.

„Eve“ starfar sem vaktmaður vestanhafs

Eitt þeirra vélmenna sem aka um á hjólum í ranni 1X í Moss, ekki ósvipuðum Segway-hjólunum sem vöktu athygli og umtal þegar þau komu fram árið 2001, er „Eve“ sem um þessar mundir er að læra að taka til í ísskápnum og pakka hlutum ofan í kassa. Með aðstoð gervigreindarinnar umtöluðu getur Eve lært nýja hluti og tileinkað sér þá, orðið hæfari til að framkvæma þá er fram vindur.

„Við söfnum öllum gögnunum saman í stórt mengi og svo gerir vélmennið það sem það telur rétt með hliðsjón af gögnunum,“ útskýrir Børnich fyrir NRK og bætir því við að sýndarveruleiki sé mikilvægt hjálpargagn við námið. Manneskja af holdi og blóði ber sýndarveruleikagleraugu og vélmennið líkir eftir hreyfingum manneskjunnar.

Eve er tegundarheiti, ekki nafn einstaks vélmennis, og í Bandaríkjunum starfa Eve-vélmenni þegar sem vaktmenn í nokkrum útvöldum fyrirtækjum. Í Noregi eru fyrstu slíku tilraunaverkefnin hafin og starfa þau vélmenni á lager og á Sunnaas-sjúkrahúsinu í Nesodden.

„Neo“ verður flaggskipið

Eve verður þó aðeins hálfdrættingur á við nýja þróunarverkefnið hjá Børnich og samstarfsfólki hans sem er vélmennið „Neo“ sem lögð eru á ráðin um að bjóða almenningi til sölu sem þjónustuvélmenni við ýmis dagleg störf. Reiknar Børnich þó ekki með að Neo verði á öllum heimilum á næstu misserum enda er verðmiðinn myndarlegur.

Neo er margt til lista lagt, hann getur gengið um …
Neo er margt til lista lagt, hann getur gengið um á venjulegum „mennskum“ fótum og opnað dyr. Ljósmynd/1X Technologies

„Ég get ekki sagt til um hvað hann kemur til með að kosta nákvæmlega, en það verður á pari við ódýra bifreið,“ segir forstjórinn og gumar í framhaldinu af mannauði fyrirtækis síns. „Færasta starfsfólk heims í sínu fagi hefur flutt hingað til að starfa undir sama þaki,“ segir hann – og varla vanþörf á miðað við þær hæfniskröfur sem gerðar verða til frumgerðar vélmennisins Neos.

„Hann þvær þvott, tekur til og skipuleggur,“ segir Børnich án þess að ljóstra upp um í hverju þetta síðasta felst, „hann er viðræðugóður og fær um hvort tveggja líkamstjáningu og venjulegar samræður,“ heldur hann áfram en 1X hefur látið í veðri vaka að þótt mörg hátæknifyrirtæki heimsbyggðarinnar hafi um langt árabil fengist við að þróa vélmenni hafi ekkert þeirra rafrænar tær sínar þar sem Neo mun hafa hælana.

Sínum augum lítur hver silfrið

„[1X] hefur náð miklum árangri,“ segir Jim Tørresen, prófessor í upplýsingatæknifræði við Háskólann í Ósló, en hann hefur átt fjölmargar heimsóknir til starfsstöðva 1X í Moss. Einkum hrífst hann af fótleggjum Neos, ekki á fagurfræðilegan hátt þó heldur með þeim formerkjum að fyrirtækinu hafi tekist að þróa vélmenni sem er fært um að ganga á tveimur fótum eins og manneskja.

Neo hlýtur þjálfun í ýmsum verkefnum sem með tímanum eiga …
Neo hlýtur þjálfun í ýmsum verkefnum sem með tímanum eiga að gera hann að þarfasta þjóninum, hugtak sem fyrir margt löngu var haft um hesta af holdi og blóði. Ljósmynd/1X Technologies

„Þetta eykur hreyfanleika vélmennisins og gerir því kleift að leysa verkefni á borð við að ganga í tröppum og opna dyr. Drifmótor hvers vélmennis er mikilvægur og hér hafa þeir [starfsmenn 1X] þróað einstakan mótor og kraftmiðlun sem er vel heppnaður hvort tveggja með vinnslu og öryggismál í huga,“ segir prófessorinn.

Ekki telja þó allir rétt að fara of geyst. Naomi Lintvedt er doktorsnemi við miðstöð réttarupplýsingatækni við Óslóarháskóla, það er að segja upplýsingatækni út frá persónuverndarsjónarmiðum.

„Vélmenni mun fá aðgang að einkalífi þínu á því augnabliki sem það kemur í þín hús,“ varar Lintvedt við og segir mikilvægt að neytendur hugleiði hvað þeim og fjölskyldum þeirra þyki þægilegt og geti sætt sig við á þeim vettvangi.

Vill frekar vélrænt gæludýr

Doktorsritgerð hennar fjallar um vélmenni, lagabókstaf og persónuvernd og það síðastnefnda sé þungavigtaratriði áður en ákveðið er að fá vélmenni á heimilið. „Þetta er ekki eins og snjallúr sem skráir mikið magn upplýsinga um þig, það skráir bara þig. Vélmenni skráir allt sem í umhverfi þess er,“ segir doktorsneminn.

Sjálf kveðst hún alla vega ekki munu kaupa sér vélmenni nema það verði mjög vel fært um húsverkin. „Ef svo er ekki verður það bara pirrandi,“ segir hún og á við þennan nýja þarfasta þjón samkvæmt draumsýn forstjóra 1X Technologies. Fyrr segist hún munu fá sér vélrænt gæludýr sem geti þó verið notalegur félagsskapur.

„En ef það vélmenni rekur á fjörur mínar sem getur unnið húsverkin að minnsta kosti jafn vel og sonur minn, þá skal ég hugsa málið,“ segir doktorsneminn efasemdafulli, Naomi Lintvedt, að lokum við NRK.

NRK

Finansavisen (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert