„Höfum nóg af gyðingahöturum“

Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, er ekki velkominn til Ísraels …
Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, er ekki velkominn til Ísraels þrátt fyrir að hafa rætt við þarlendan starfsbróður sinn, Israel Katz, á nýafstöðnum NATO-fundi og Katz þá tekið vel í fund. AFP/Stian Lysberg Solum

Ísraelski utanríkisráðherrann Israel Katz neitar að hitta norskan starfsbróður sinn, Espen Barth Eide, á þeirri forsendu að Noregur viðurkenni Palestínu sem ríki auk þess sem norsk stjórnvöld hafi ekki fordæmt Hamas-samtökin.

Frá þessu greina ísraelsku dagblöðin Jerusalem Post og Times of Israel auk þess sem þau segja að Eide hafi verið neitað um að koma til Ísraels, en því síðasttalda vísar norska utanríkisráðuneytið á bug.

„Við höfum ekki verið í neinu sambandi við ísraelsk yfirvöld með það í huga að heimsækja Vesturbakkann eða palestínsk yfirvöld,“ segir upplýsingafulltrúi ráðuneytisins við norska ríkisútvarpið NRK. Hins vegar játar hann því að ráðuneytið hafi óskað eftir fundi með utanríkisráðherra Ísraels.

„Hann er ekki velkominn“

David Mencer, upplýsingafulltrúi Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels, staðfestir í samtali við TV2 í Noregi að fundur með Eide sé ekki í boði og enn fremur það sem norska ráðuneytið vísaði á bug: „Ég hef fengið vitneskju um að utanríkisráðherra Noregs hafi óskað eftir að heimsækja Ísrael og því svara ég á þann veg að hann er ekki velkominn,“ segir Mencer við TV2 og útskýrir svo hvernig á því standi.

„Noregur er eitt þeirra landa sem í miðju stríði eftir fjöldamorðið 7. október hefur lagt blessun sína yfir að ranglega viðurkenna palestínskt ríki,“ segir Mencer og bætir því við að Noregur hafi aldrei fordæmt árás Hamas-liða 7. október 2022.

„Svo við Norðmenn og ríkisstjórn Noregs, sérstaklega, nei, ekki við almenning í Noregi, en við ríkisstjórnina, segjum við hátt og skýrt: Noregur, við höfum nóg af gyðingahöturum hér á svæðinu í Hamas á Gasa, við þurfum ekki að flytja inn stuðningsmenn þeirra frá útlöndum.“

Fullkomlega rangt

Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs svarar ákúrunum og segir það algjörlega á valdi Ísraelsmanna hvort þeir kjósi að ræða við fulltrúa annarra ríkja, en fettir fingur út í ástæðuna.

„Það er fullkomlega rangt að Noregur hafi ekki fordæmt Hamas. Þetta er gróf fullyrðing. Ísraelar vita að hún er röng,“ segir Støre, norsk stjórnvöld hafi fordæmt samtökin þegar eftir árásina í október um árið.

Norska utanríkisráðuneytið sendi í framhaldinu frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

Í tengslum við fyrirhugaða heimsókn til svæðisins sendi utanríkisráðuneytið fyrirspurn um fund með Katz utanríkisráðherra. [Eide] ræddi sjálfur við Katz um slíkan fund á NATO-fundinum [sem nýlega var haldinn á 75 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins] og skynjaði þá ósk eftir samtali. Utanríkisráðuneytið meðtekur þau skilaboð að ekki er unnt að halda þann fund nú.

Í vor, 75 árum eftir að Noregur viðurkenndi Ísrael sem ríki, varð Noregur eitt 146 ríkja Sameinuðu þjóðanna til að viðurkenna Palestínu sem ríki. Nokkuð sem varð til þess að Ísraelsmenn kölluðu hóp sendierindreka heim frá sendiráði sínu í Ósló.

NRK

NRKII (Noregur viðurkennir Palestínu í vor)

Nettavisen

Jerusalem Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert