„Mín skilaboð til ykkar, félagar mínir í Repúblikanaflokknum, eru þau að við elskum þetta land og við erum sameinuð um að vinna,“ sagði J.D. Vance varaforsetaframbjóðandi í sinni fyrstu ræðu á landsfundi repúblikana síðan hann var útnefndur.
Donald Trump forsetaframbjóðandi, sem ávarpar sjálfur fundinn í kvöld, fylgdist með Vance kynna sig fyrir almenningi.
„Ég tek aldrei sem sjálfsögðum hlut traustið sem þú hefur sýnt mér og það er mikill heiður að geta lagt mitt af mörkum til að ná fram þeirri stórkostlegu framtíðarsýn sem þú hefur fyrir landið,“ sagði Vance í gær.
„Ég heiti hverjum Bandaríkjamanni – sama hvaða flokk þú tilheyrir, þá mun ég gefa mig allan fram við að þjóna þér og gera landið að stað þar sem allir þeir draumar sem þú hefur fyrir sjálfan þig, fjölskyldu þína og landið þitt verða mögulegir á ný.“
Eins og búist var við þá talaði J.D. Vance um sitt líf, uppeldi og hvernig honum tókst að ná langt. Vance átti erfitt uppeldi og bjó við erfiðar aðstæður í stáliðnaðarbænum Middletown í Ohio.
Móðir hans var mikill fíkill en Vance vakti athygli á því í ræðunni að hún sé búin að vera edrú í 10 ár. Í myndbandinu hér að neðan má sjá tilfinningaþrungin viðbrögð hennar þegar hann kallaði á hana í ræðunni.
„Ég elska þig mamma,“ sagði Vance.
Hann talaði mikið til verkamanna og vinnandi stétta í sveifluríkjum eins og Michigan, Wisconsin og Pennsylvaníu.
Þá gagnrýndi hann NAFTA-viðskiptasamning Ameríkuríkjanna, sem mörg verkalýðsfélög voru ekki sátt við og telja eina ástæðu þess að störf hafa farið úr landi. Trump rifti samningnum sem forseti og gerði annan viðskiptasamning.
Vance sagði að þegar hann hefði verið í framhaldsskóla hefði Biden stutt viðskiptasamning við Kína og innrás Bandaríkjanna í Írak.
„Og á hverju þrepi, í smábæjum eins og mínum í Ohio, eða í næsta húsi í Pennsylvaníu, eða í Michigan og öðrum ríkjum í landinu, voru störf send til útlanda og börn send í stríð,“ sagði hann.