Milljarðamæringur keypti risaeðlu

Kambeðlan Apex í sýningarsal Sotheby's í New York.
Kambeðlan Apex í sýningarsal Sotheby's í New York. AFP

Upplýst var í kvöld, að sá sem keypti steingerða beinagrind af kambeðlu fyrir metfé á uppboði á vegum Sotheby's uppboðsfyrirtækisins í New York í síðustu viku var Ken Griffin, forstjóri bandaríska vogunarsjóðsins Cidadel. 

Beinagrindin, sem nefnd hefur verið Apex, er talin vera 150 milljón ára gömul og er sú stærsta sem fundist hefur, að sögn Sotheby's. Hún fannst í maí 2022 á landareign steingervingafræðingsins Jason Cooper í Colorado í Bandaríkjunum. Sotheby's sagðist hafa átt samvinnu við Cooper og skrásett allt ferlið frá því beinagrindin fannst og þar til lokið var við að setja hana saman.

6,1 milljarður króna

Griffin bauð í beinagrindina gegnum síma. Uppboðið stóð yfir í kortér og áhorfendur fögnuðu þegar boðin hækkuðu en alls lögðu sex fram boð. Griffin hreppti Apex á 44,6 milljónir dala, jafnvirði 6,1 milljarðs íslenskra króna.

„Apex fæddist í Ameríku og hann á að vera áfram í Ameríku,“ sagði Griffin eftir uppboðið, að sögn blaðsins Wall Street Journal í kvöld.

Eignir Griffins eru metnar á 37,8 milljarða dala, jafnvirði nærri 5.200 milljarða króna, að sögn tímaritsins Forbes. Hann er sagður vilja skoða, að lána beinagrindina til bandarísks safns.

Stan seldist á 31,8 milljónir dala

Griffin hefur áður átt samvinnu við söfn. Þannig greiddi hann 43,2 milljónir dala árið 2021 fyrir eitt af frumeintökunum af bandarísku stjórnarskránni og lánaði það síðan til Crystal Bridges listasafnsins í Arkansas.

Beinagrindin af kambeðlunni, er 3,3 metra há og 8,2 metra löng, og er nánast heil með 254 bein af alls 319.  Apex er 30% stærri en „Sophie“, heillegasta beinagrind af kambeðlu sem nú er til sýnis en hún er á Náttúruminjasafninu í Lundúnum. 

Hæsta verð sem áður hafði verið greitt fyrir risaeðlubeinagrind var greitt árið 2020 þegar grameðla, sem nefnd var Stan, seldist á 31,8 milljónir dala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert