Biden sagður leita inn á við og íhuga framtíð sína

Ósamræmi er í frásögnum af hugarástandi Biden.
Ósamræmi er í frásögnum af hugarástandi Biden. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, er nú sagður leita inn á við og íhuga alvarlega hvort hann eigi að draga framboð sitt til baka. 

New York Times og Reuters greina frá því að hinir ýmsu heimildarmenn innan raða framboðsins segi tvær grímur farnar að renna á forsetann, þrýstingurinn sé orðinn mikill og óumflýjanlegt sé í raun að Biden þurfi að stíga til hliðar.

Í umfjöllununum tveimur má þó sjá mótmæli frá heimildarmönnum innan framboðsins og Hvíta hússins sem segja forsetann hvergi af baki dottinn. Hann sé orðinn þrjóskari ef eitthvað er. 

Hörfa þurfi frá sem fyrst

Samkvæmt heimildum CNN bætist þó í hóp starfsfólks og ráðgjafa innan hvíta hússins og framboðsins sem telji Biden þurfa að hörfa frá fyrri áformum sem fyrst. Það má því segja að mikið sé um mótsagnir er varðar skoðanir flokksmeðlima og starfsfólks. 

Greint hefur verið frá því að fjölmargir innan demókrataflokksins hafi lýst því yfir, bæði opinberlega og í samræðum undir fjögur augu, að nú sé kominn tími til þess að Biden stígi til hliðar, eða í það minnsta ýjað að því.

Þar má, meðal annarra, nefna Nancy Pelosi, fyrr­ver­andi for­seta full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, Chuck Schumer, leiðtoga öld­unga­deild­ar Bandaríkjaþings og Adam Schiff, þingmann í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings. Einnig hefur ný skoðanakönnun leitt í ljós að meirihluti demókrata vill að Biden hætti við. 

Stærri styrktaraðilar á hlaupum

Þá greina New York Times frá því að stærri styrktaraðilar framboðsins bindi nú enda á framlög sín í hrönnum og styrktarupphæð þeirra frá því í síðasta mánuði hafi helmingast í júlí. 

Biden hefur átt sérstaklega erfitt uppdráttar eftir síðustu kappræður sínar við Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þar að auki mismælti hann sig illilega á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins fyrr í mánuðinum þar sem hann kallaði Úkraínuforseta Pútín og varaforsetann Kamölu Harris, Trump

Nú hefur Biden einnig greinst með Covid og er sagður vera í einangrun með öndunarfæraeinkenni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert