Mótmælendur í Narsingdi í Bangladess brutust í dag inn í fangelsi og frelsuðu hundruð fanga, að sögn lögreglu. Stúdentar hafa kveikt í fjölda opinberra bygginga.
„Fangarnir flúðu fangelsið og mótmælendur kveiktu í fangelsinu,“ segir lögreglumaður við AFP en hann vill ekki að nafns síns sé getið. „Ég veit ekki hversu margir fangar eru í fangelsinu, en það yrði í hundruðum talið.“
Yfirvöld hafa staðfest innbrotið en gefa ekki upp nákvæman fjölda frelsaðra.
Mikil mótmæli brutust út víða í Bangladess í vikunni og átök eru milli stúdenta, stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og vopnaðra lögreglumanna.
Allt að 50 manns hafa látið lífið og hundruð særst. Lögregla hefur beitt táragasi og skotið gúmmískotfærum í mótmælendur.
Útsending ríkissjónvarpsins í Bangladess (BTV) var rofin í dag eftir að stúdentasamtökin kveiktu í höfuðstöðvum þess, að sögn fjölmiðla þar í landi.
CNN greinir frá því að námsmenn í Bangladess krefjist þess að kvótakerfi stjórnvalda verði lagt niður. Kvótakerfið veitir ákveðnum hópum samfélagsins greiðari aðgang að rúmlega helmingi opinberra starfa.
Um 30% af þessum eftirsóttu störfum eru ætluð ættingjum hermanna sem börðust í sjálfstæðisbaráttu Bangladess gegn Pakistan árið 1971 – sem voru tímamót í sögu landsins.
Margir úr svokallaðri stjórnmálaelítu landsins eru skyldir þessari kynslóð, þar á meðal Sheikh Hasina forsætisráðherra, sem er dóttir sjálfstæðishetjunnar Sheikh Mujibur Rahman, sem var myrtur árið 1975.
„Starf hjá hinu opinbera er mjög gott tækifæri,“ hefur CNN eftir Maruf Khan, 29 ára Bangladessbúa sem stundar nám í Ástralíu, en hann tekur þátt í mótmælaaðgerðum í Sydney.
„Um 500.000 til 600.000 manns keppa um 600 til 700 störf hjá hinu opinbera og þar að auki er 56% kvóti. Það er ekki auðvelt.“