Einn drepinn í drónaárás Húta á Tel Avív

Einn er látinn eftir árás Húta.
Einn er látinn eftir árás Húta. AFP/Gil Cohen-Magen

Uppreisnarhópur Húta í Jemen hefur lýst ábyrgð á drónaárás á Tel Avív í Ísrael í nótt.

Hútar réðust á íbúðablokk og lést einn Ísraeli og fjórir aðrir særðust.

Hútar, sem studdir eru af klerkastjórninni í Íran, notuðust við nýja tegund af dróna sem þeir nefna Yafa og á hann að geta komist hjá loftvörnum Ísraelsmanna, að sögn talsmanns Húta.

Hóta Ísraelsmönnum

„Hér fara Ísraelsmenn að vinna. Hér fara ferðamenn á ströndina eða versla. Hér er hægt að fá sér kaffi og njóta föstudagsmorgna í Tel Avív. Hér er þar sem íranskur dróni frá Jemen flaug á íbúðabyggingu,“ segir í færslu ísraelska hersins sem sýnir hvar sprengingin varð og nærumhverfið.

Hútar hóta því nú að gera Tel Avív að lykilskotmarki eftir að hafa hingað til aðallega ráðist á flutningaskip á Rauðahafi. Byrjuðu þeir þeim árásum til stuðnings hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Segja Hútar að þeir muni halda áfram árásum sínum þar til Ísrael hættir stríði sínu við Hamas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka