Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segir í viðtali við Bloomberg að viðbrögð Donalds Trumps forsetaframbjóðanda eftir að hafa verið skotinn hafi verið grjóthörð.
Hann hyggst þó ekki lýsa yfir stuðningi við neinn frambjóðanda í komandi forsetakosningum.
Þetta kemur fram í viðtali hans við Bloomberg.
„Að sjá Donald Trump standa upp eftir að hafa verið skotinn í andlitið, með hnefann í loftinu með bandaríska fánann, er eitt af því grjótharðasta sem ég hef séð á ævi minni,“ sagði Zuckerberg.
Reynt var að ráða Trump af dögum á kosningafundi hans í Butler í Pennsylvaníu. Hann var skotinn í eyrað, einn lést og tveir særðust.
Strax þegar hann stóð upp setti hann hnefann í loftið og náðust magnaðar ljósmyndir. Ein af þeim endaði sem forsíðan á tímariti Time.
„Að einhverju leyti sem Bandaríkjamaður þá er erfitt að verða ekki tilfinningaríkur við að sjá þennan baráttuanda og ég held að það sé ástæðan fyrir því að mörgum líkar vel þennan gæja,“ sagði hann.
Hann neitaði að lýsa yfir stuðningi við Trump eða Joe Biden Bandaríkjaforseta og sagði að hann hafði ekki í hyggju að blanda sér í forsetakosningarnar á neinn hátt.