Gagnrýna Rússlandsheimsókn harðlega

Byggingar Háskólans í Tromsø en för tveggja prófessora þaðan til …
Byggingar Háskólans í Tromsø en för tveggja prófessora þaðan til Rússlands, annars þó á eftirlaunum, hefur vakið mikinn úlfaþyt á norska Stórþinginu jafnt sem í fræðasamfélagi landsins. Ljósmynd/Háskólinn í Tromsø

Norski Framfaraflokkurinn Frp gagnrýnir ríkisstjórn Noregs harðlega og telur hana bera ábyrgð á umdeildri heimsókn tveggja prófessora við Háskólann í Tromsø til Rússlands í lok júní þar sem þeir sóttu meðal annars bókmenntahátíðina Hvíti júní auk þess sem annar þeirra hélt fyrirlestra.

Telja talsmenn Frp förina brjóta í bága við þá einangrun sem Rússland skuli sæta vegna innrásarinnar í Úkraínu auk þess sem hún auki hættuna á upplýsingaöflun Rússa gegnum njósnir en slík mál hafa einmitt komið upp við Háskólann í Tromsø.

„Við teljum ábyrgðina í málinu vera ríkisstjórnarinnar sem kaus að velja Rússland og Kína sem möguleg lönd til að eiga í rannsóknarsamstarfi við,“ segir Himanshi Gulati, þingmaður Frp og nefndarmaður í menntamála- og vísindarannsóknarnefnd norska Stórþingsins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Ekki við háskólann að sakast

Stjórnmálamenn sem NRK hefur rætt við telja ekki rétt að gagnrýna sjálfan háskólann sem þeir Urban Wråkberg og Ivar Bjørklund tengjast, en sá síðarnefndi er kominn á eftirlaun og því prófessor emeritus. Var hann þó kynntur sem prófessor við Háskólann í Tromsø í tengslum við fyrirlestrahald í Rússlandsförinni.

Hefur háskólinn beðist afsökunar á að prófessorarnir tveir héldu í ferðina, sem hófst 20. júní og stóð í viku, en Mads Andenæs, lagaprófessor við Háskólann í Ósló, segir í raun ekki við stofnunina sem slíka að sakast heldur Jan-Gunnar Winthers aðstoðarrektor sem í raun beri ábyrgð á ferð prófessoranna.

Þessu vísar Winther alfarið á bug í samtali við NRK og segir það dagljóst að heimsóknin hafi ekki gengið í berhögg við neinar reglur. Bjørklund hafi raunar beðist undan því að vera kynntur í pontu sem fulltrúi háskólans.

Vilja reyna kolfellda ályktun á ný

Í fyrra ályktaði Frp að norska ríkisstjórnin skyldi slíta öllu rannsóknarsamstarfi við lönd sem Noregur ætti ekki í öryggispólitísku samstarfi við (n. sikkerhetspolitisk samarbeid) og leyniþjónustur teldu að gætu reynst Noregi háskaleg hvað njósnir áhrærir. Var tillagan felld með 86 atkvæðum gegn 14 en nú vilja þingmenn Frp reyna að vinna henni brautargengi á ný.

„Ég hyggst taka málið upp við utanríkisráðherra og ráðherra vísindarannsókna og menntamála,“ segir Gulati að lokum við NRK.

NRK

NRKII (förin fyrst gagnrýnd)

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert