Bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich hlaut í morgun sextán ára dóm í Jekaterinburg í Rússlandi fyrir njósnir sem hann var handtekinn fyrir í mars í fyrra en hann hefur um árabil starfað sem fréttaritari Wall Street Journal í Rússlandi.
Gershkovich er 32 ára gamall og var borinn sökum um að hafa verið að afla sér upplýsinga um framleiðslu og starfsemi hergagnaverksmiðjunnar Uralvagonzavod í Úralfjöllum en eins og margir bentu á, þar á meðal Pjotr Sauer, blaðamaður breska blaðsins The Guardian, er Gershkovich aðeins skiptimynt Kremlarveldisins sem – að föllnum dómi – hyggst bjóða hann í skiptum fyrir fanga sem Rússar vilja ná úr fangaklefum Vesturlanda.
Er rússneski FSB-leyniþjónustumaðurinn og drápsmaðurinn Vadím Krasíkov þar talinn líklegur kandídat en hann afplánar nú lífstíðardóm fyrir manndráp í Þýskalandi.
Almar Latour, útgefandi Wall Street Journal sagði nýlega við New York Times að réttarhöldin væru sýndarréttarhöld byggð á fölskum áburði.
Áður en Gershkovitsj var handtekinn hafði hann ferðast um Rússland í fimm ár og orðið hugfanginn af landinu. Skyndilega var hann grunaður njósnari og sat í fangaklefa.
Eins og fjallað er um í leiðara Morgunblaðsins í dag hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti ekki farið leynt með að Rússar séu tilbúnir að skipta á Gershkovich og Krasíkov enda blaðamaðurinn bandaríski ekki sá fyrsti sem handtekinn er fyrir uppdiktaðar sakir, það var Paul Whelan einnig á sínum tíma, fyrrverandi sjóliði í Bandaríkjaher sem nú afplánar sextán ára dóm fyrir „njósnir“ en fengist afhentur gegn því að réttur maður væri í boði á móti.
Saksóknari krafðist átján ára refsingar í máli Gershkovich sem frá upphafi hefur neitað öllum sakargiftum og drepið tímann í fangelsinu með lestri rússneska bókmennta og sendibréfa, sem honum berast hvaðanæva að úr heiminum, auk þess að tefla bréfskák við föður sinn í Bandaríkjunum.
Í mars skrifaði Emma Tucker, ritstjóri Wall Street Journal, að blaðamaðurinn fangelsaði sýndi fádæma þrautseigju auk þess sem kímnigáfa hans væri óbeygð. „Við erum gáttuð yfir því hve teinréttur hann stendur – og fjölskylda hans – gagnvart þessari þungu raun.
Styrkur þeirra hnikar þó ekki þeirri staðreynd að fangelsun Evans er opinber atlaga að réttindum frjálsra fjölmiðla á tímum þegar sönnunargögn þess blasa við um allan heim, að vönduð blaðamennska hefur lykilhlutverki að gegna fyrir skilning samfélagsins á heimsatburðum og að það verði vitni að sögunni,“ skrifar Tucker.