Landtaka Ísraels í Palestínu talin ólögmæt

Það er ólíklegt að álit dómstólsins muni hafa einhver áhrif.
Það er ólíklegt að álit dómstólsins muni hafa einhver áhrif. AFP/Remko de Waal

Alþjóðadómstóllinn í Haag gaf í dag út ráðgefandi álit sem segir að landtaka Ísrael í Palestínu sé ólögmæt. Ísraelum er gert skylt að yfirgefa landsvæði Palestínu. Telst þó ólíklegt að af því verði.

Forseti dómstólsins, Nawaf Salam, greindi frá niðurstöðunni.

„Dómstóllinn hefur komist að því að áframhaldandi vera Ísraels á palestínsku landsvæði er ólögleg. Ísraelum ber skylda að binda enda á ólöglega veru sína eins fljótt og auðið er.“

Fagnað í Palestínu

Ísraelar hafa þegar gagnrýnt álit dómstólsins og segir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, álitið vera ákvörðun byggða á lygum.

„Gyðingar eru ekki hernámsmenn í sínu eigin landi. Ekki í höfuðborginni okkar Jerúsalem, eða í borgum forfeðra okkar Júdeu og Samaríu,“ sagði forsætisráðherrann í dag. 

Álitinu er aftur á móti fagnað í Palestínu. Eftir að dómstólinn kvað upp álit sitt sagði Riyad Al-Maki, utanríkisráðherra Palestínu, þetta marka vatnaskil í sögu landsins. 

„Palestínska þjóðin hefur mátt þola óbærilegar þjáningar og óréttlæti í áratugi,“ sagði hann við blaðamenn fyrir utan dómssal í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert