Látinn degi eftir að hafa stigið til hliðar

Nguyen Phu Trong, forseti Víetnam og aðalritari víetnamska kommúnistaflokksins.
Nguyen Phu Trong, forseti Víetnam og aðalritari víetnamska kommúnistaflokksins. AFP

Nguyen Phu Trong, fyrrverandi forseti Víetnam og aðalritari víetnamska kommúnistaflokksins, lést í dag áttræður að aldri. Í gær lýsti flokkurinn því yfir að Trong ætlaði að stíga til hliðar sem aðalritari vegna veikinda sinna.

Samkvæmt opinberri yfirlýsingu sem gefin var út á föstudaginn lést Trong „vegna elli og alvarlegra veikinda“ en andlát hans ber að á ókyrrðartíma í víetnömskum stjórnmálum.

Kommúnistaflokkurinn er eini starfandi stjórnmálaflokkurinn í Víetnam. Trong hefur leitt flokkinn síðan 2011. Hann var einnig forseti Víetnam frá 2018 til 2021 og er hann talinn vera einn valdamesti maður síðari tíma í Víetnam.

Veikindin óljós

Andlát hans gerist degi eftir að stjórnvöld í Víetnam sögðu í óvæntri tilkynningu að Trong þyrfti tíma til að einblína á meðferð sína vegna ótilgreinds sjúkdóms. Þar var því bætt við að Tó Lam forseti tæki við skyldum Trongs við sem aðalritari.

Þennan sama dag veitti ríkisstjórnin Trong einnig Gullstjörnuna, sem er æðsta heiðursmerki sem veitt er í Víetnam, fyrir framlag Trongs til flokksins og landsins.

Trong heimsótti Vladimír Pútín Rússlandsforseta í lok júní en síðan þá hefur sjaldan sést til hans. Frá 2019 hefur það reglulega gerst að hann hverfi úr sviðsljósinu í langan tíma.

Árið 2018 voru sett lög í landinu sem flokkuðu heilsu æðstu embættismanna sem trúnaðarmál. Miklar vangaveltur um heilsu hans hafa lengi þrifist á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert