Stjórnendur Flesland-flugvallarins í Bergen í Noregi reikna með seinkunum í dag vegna kerfisbilunar hjá Microsoft sem þó hefur ekki haft bein áhrif á norskum flugvöllum enn sem komið er, röskunin á Flesland sprettur af vandræðagangi annarra flugvalla, í Evrópu sem víðar.
„Ég hef ekki fengið tilkynningar um að þetta hafi áhrif á okkar flugvelli. Allt gengur sinn vanagang á Gardermoen og öðrum flugvöllum,“ segir Cathrine Framholt upplýsingafulltrúi Avinor, rekstraraðila norskra flugvalla, við norska ríkisútvarpið NRK.
Rekstrarstjóri Flesland, Øystein Skaar, segir allt í skorðum þar enn sem komið er, hins vegar muni flug að öllum líkindum raskast í dag, til dæmis vegna ástands á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam þar sem fjöldi flugvéla á leið til og frá Bergen millilendi dag hvern.
Frá bönkunum DNB, Danske Bank, Nordea og Sparebank 1 SMN í Noregi berast þær upplýsingar að allt sé með kyrrum kjörum og engin tæknileg vandamál hafi komið upp það sem af er degi.
Marit Hverven, upplýsingafulltrúi Þjóðaröryggisstofnunar Noregs, NSM, segir vandamálið þess eðlis að tæknideildir flestra fyrirtækja ráði við að leysa það.
Nokkur norsk apótek hafa hins vegar lent í vandræðum vegna kerfishrunsins og þurft að fresta opnun í morgun eða senda lyfseðla til afgreiðslu í öðrum apótekum. Þar á meðal er Apotek1 í Askim þar sem Thanh Le, lyfjafræðingur í útibúinu, segir norska dagblaðinu VG að apótekið hafi verið opnað klukkan 11 í morgun í stað 10 (að norskum tíma) en nú sé allt með kyrrum kjörum og kerfin starfi eðlilega.