Turkish Airlines hafa aflýst 84 flugferðum vegna bilunar í Microsoft-stýrikerfum sem hefur haft áhrif víða um veröld.
„Til að koma í veg fyrir röskun verður nokkrum flugferðum aflýst og flugáætlunin okkar kemst smám saman í eðlilegt horf,“ skrifar Yahya Ustun hjá Turkish Airlines á X.
Meiriháttar kerfisbilun hjá Microsoft má rekja til gallaðrar kerfisuppfærslu frá netöryggisfyrirtækinu Crowdstrike.
Búið er að kyrrsetja eða fresta flugferðum á flugvöllum víðs vegar um heiminn vegna tæknilegra örðugleika sem skekja nú heimsbyggðina.
Fjölmiðlar, lestarkerfi, heilbrigðisþjónusta, fjarskiptafyrirtæki, bankar og jafnvel skipuleggjendur Ólympíuleikanna finna fyrir áhrifum kerfisbilunarinnar.