Fimmtíu ár frá innrás Tyrkja í Kýpur

Forseti Kýpur segir endursameiningu eyjunnar vera einu lausnina við áralangri …
Forseti Kýpur segir endursameiningu eyjunnar vera einu lausnina við áralangri deilu. AFP/Iakovos Hatzistavrou

Fimmtíu ár eru liðin frá innrás Tyrkja í Kýpur. Tyrkir lögðu undir sig þriðjung eyjunnar í innrásinni og með stuðningi Tyrklands stofnuðu tyrkneskir-Kýpverjar Lýðveldi Norður Kýpur, ríki sem einungis Tyrkland hefur viðurkennt.

Ríki grískra-Kýpverja var fyrir vikið stofnað á suðurhluta eyjunnar sem meginþorri heims hefur viðurkennt. 

Tyrkjaforseti hafnar endursameiningu

Lýðveldi Norður Kýpur reiðir sig nær alfarið á stuðning Tyrklands, en allt frá innrásinni hafa staðið yfir viðræður um endursameiningu norðurhluta og suðurhluta eyjunnar.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði í tilefni dagsins að hann sæi enga ástæðu til að halda viðræðum áfram um endursameiningu eyjunnar.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á blaðamannafundi í tilefni dagsins.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á blaðamannafundi í tilefni dagsins. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa árum saman reynt að miðla málum á eyjunni án árangurs. Erdogan kallaði eftir því að tyrkneski hluti eyjunnar standi jafnfætis gríska hluta eyjunnar. Hann sagði yfirvöld reiðubúin til að leita samkomulags um hvernig bæri að tryggja frið á eyjunni. 

Vill sameina norður- og suðurhluta eyjunnar 

Nikos Christodoulides, forseti Kýpur, sagði að hann sæi enga aðra lausn á deilunni en með því að endursameina norðurhluta eyjunnar og suðurhluta eyjunnar í eitt ríki.

„Hvað sem Erdogan og fulltrúar hans á hersetna svæðinu segja, þá ber Tyrkland, nú fimmtíu árum síðar, enn ábyrgð á því að hafa brotið á mannréttindum kýpversku þjóðarinnar og alþjóðalögum,“ sagði Christodoulides. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert