Hljóðið var óvenju þungt í Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í ávarpi sínu til þjóðarinnar í vikunni. Hann gaf í fyrsta skyn vilja til þess að semja við Rússa um stríðslok.
Þessu greinir CNN frá en í ávarpi sínu gaf Selenskí til kynna að yfirvöld í Moskvu ættu að senda sendinefnd á næstu friðarráðstefnu sem verður haldin í nóvember.
Rússum var ekki boðið á ráðstefnuna sem var haldin í Sviss í júní. Þá sagði Selenskí að viðræður við Rússa gætu ekki átt sér stað fyrr en Rússar hefðu dregið her sinn til baka af úkraínsku landssvæði.
Þrátt fyrir að vopnasendingar Bandaríkjamanna til Úkraínu í maí hafi hægt verulega á sókn rússneska hersins í austurhluta Úkraínu, hefur ekki tekist að stöðva sóknina alfarið.
Þá eru blikur á lofti um vilja nánustu bandamanna Úkraínu, Bandaríkjamanna og Þjóðverja, til áframhaldandi stuðnings.
Á blaðamannafundi á mánudag sagði Selenskí að Úkraínumenn fengju ekki nægan stuðning frá Vesturlöndum til þess að vinna stríðið. Þá sagði hann að endalok stríðsins myndu hafa áhrif utan landamæra Úkraínu, sama hvernig fer.
John Herbst, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, sagði nýjan tón í Selenskí mögulega vera í ljósi varaforsetaefnis Donalds Trumps.
Á mánudag tilkynnti Trump að J.D. Vance yrði varaforseti Bandaríkjanna ef Trump verður kosinn forseti í nóvember. Vance hefur verið gagnrýninn á hernaðarstuðning til Úkraínu.
Herbst sagði að kannski væri Selenskí að gera mögulegri stjórn Trumps ljóst að Úkraínumenn væru tilbúnir til samninga, á meðan að skilmálarnir eru sanngjarnir.
Trump og Selenskí ræddu saman í síma í gær.
Trump sagði símtalið hafa verið gott og að hann gæti komið á friði.
Selenskí sagði að þeir hefðu rætt hvaða skref þyrfti að taka til þess að koma á varanlegum frið.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt nokkrum sinnum á síðustu mánuðum að hann væri tilbúinn til þess að semja við Úkraínumenn. Kröfur sem hann hefur gert hafa hins vegar talist óásættanlegar af Úkraínumönnum og Vesturlöndum.