Talið er að bilun í kerfum Microsoft vegna uppfærslu netöryggisfyrirtækisins Crowdstrike hafi haft áhrif á um 8,5 milljónir tölva um allan heim.
Fram kemur að þótt um mikinn fjölda tölva sé að ræða þá séu 8,5 milljónir aðeins um 1% af heildarfjölda tölva sem keyri á Windows.
Bilunin gerði vart við sig í gær og hafði áhrif á ýmsa geira víða um heim, þar á meðal flugsamgöngur.
Þá hafði kerfisbilunin sömuleiðis áhrif hér á landi en hún olli bilun í kerfum Landsbankans og bókasafna víða um land svo eitthvað sé nefnt.
Í samtali við mbl.is sagði Theódór R. Gíslason, tæknistjóri hjá Syndis og stofnandi Defend Iceland, að skoða þyrfti bilunina vel til þess að hægt væri að læra af henni.
„Lykillinn og lærdómurinn hér er að vita að svona atvik, þá í gegnum virðiskeðju stafrænna lausna, geta átt sér stað og vera frekar betur undirbúinn fyrir neyðaratvik en að velta sér of mikið upp úr þeirra klúðri,“ sagði Theódór.