Starfsmenn Disneylands samþykkja verkfall

Á miðvikudag komu fjöldi starfsmanna saman á bílastæði skemmtigarðsins í …
Á miðvikudag komu fjöldi starfsmanna saman á bílastæði skemmtigarðsins í Anaheim og mótmæltu. AFP/Frederic J. Brown

Starfsmenn Disneylands í Kaliforníu samþykktu verkfallsaðgerðir í atkvæðagreiðslu í gær. 

Samkvæmt yfirlýsingu frá stéttarfélögum starfsmannanna greiddu 99% atkvæði með verkfallsaðgerðum.

Verkfallið mun ná til rúmlega 14 þúsund starfsmanna, en kjaraviðræður hafa staðið yfir síðan í apríl. 

Forsvarsmenn stéttarfélaganna eiga eftir að ákveða hvenær verkföll hefjast og hversu löng þau verða. 

Kjaraviðræður halda áfram eftir helgi. 

AFP/Frederic J. Brown

40 ár frá síðasta verkfalli

Í yfirlýsingu samninganefndar stéttarfélaganna sagði að verkfall væri alltaf síðasta úrræði starfsmanna. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýndi hins vegar að starfsmenn Disneylands væru tilbúnir til að gera það sem þyrfti til þess að koma í veg fyrir ósanngjörn vinnubrögð og fá þau kjör sem þeir eiga skilið. 

Starfsmenn Disney í Kaliforníu hafa ekki farið í verkfall síðan 1984.

Á miðvikudag komu fjöldi starfsmanna saman á bílastæði skemmtigarðsins í Anaheim og mótmæltu lágu kaupi og hótunaraðferðum stjórnanda. 

Stéttarfélögin halda því fram að 500 starfsmenn hafi verið áminntir eða þeim hótað fyrir að bera nælu sem sýnir hnefa Mikka mús.

AFP/Frederic J. Brown

385 þúsund krónur á mánuði

AFP-fréttaveitan ræddi við hina 44 ára gömlu Ginny Cristales sem hefur starfað hjá Disney í fimm ár.

Mánaðarlaun hennar eru um 2.800 dollarar, eða um 385 þúsund krónur. Launin duga ekki fyrir húsaleigu Cristales og fjögurra barna hennar. 

„Við eigum skilið sanngjörn laun,“ sagði hún. „Verkall er okkar síðasta úrræði, og við viljum ekki þurfa grípa til þess. En ef Disney fellst ekki á kröfur okkar og gefur okkur ekki það sem við þurfum, þá erum við öll tilbúin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert