Þingmaður grunaður um fjölda brota

Timo Vornanen, þingmaður Finnska þjóðarflokksins, liggur undir grun um vopnalagabrot, …
Timo Vornanen, þingmaður Finnska þjóðarflokksins, liggur undir grun um vopnalagabrot, hótanir og fleira. Hann stofnaði eins manns flokk eftir að honum var vísað úr Finnska þjóðarflokknum í vor. Ljósmynd/Wikipedia.org/Finnska þingið

Lögreglan í finnsku höfuðborginni Helsinki hefur lokið rannsókn sinni á því atviki þegar Timo Vornanen, þingmaður Finnska þjóðarflokksins, Perussuomalaiset, hleypti af skammbyssu úti fyrir dyrum skemmtistaðarins Bar Ihku 26. apríl í vor.

Eru tildrög þessa nokkuð á huldu en talið er að komið hafi til misklíðar og orðasennu milli þingmannsins og vegfarenda. Kveður hann sér hafa verið ógnað og því hafi hann dregið upp skammbyssu og hleypt af skoti sem fór í jörðina. Því næst hafi hann beint byssunni að þeim sem hann deildi við.

Eftir því sem lögregla greinir frá í fréttatilkynningu voru málsaðilar það drukknir að enginn þeirra mundi við yfirheyrslur um hvað var deilt nema hvað það mun hafa snúist um skipulagða glæpastarfsemi en þingmaðurinn var lögregluþjónn að atvinnu þar til hann settist á þing.

Fór með skotvopn inn í þinghúsið

Við húsleit á heimili þingmannsins fundust tvö skothylki, eða magasín, sem hann reyndist ekki hafa leyfi fyrir auk gasknúinna skotvopna sem hann hefur heldur ekki leyfi til að hafa í fórum sínum. Við yfirheyrslur viðurkenndi Vornanen að hafa tvívegis farið með skotvopn inn í þinghúsið í Helsinki, í síðara skiptið daginn sem hann hleypti af byssunni í miðbænum.

Var honum þegar vísað úr Finnska þjóðarflokknum í vor og stofnaði þá eigin flokk sem hann situr einn á þingi fyrir, en Finnski þjóðarflokkurinn þykir ramba á barmi þess að vera öfgahægriflokkur og hafa flokksmenn orðið uppvísir að tengslum við nýnasistahreyfingar, meðal annars Norrænu andspyrnuhreyfinguna, Nordic Resistance Movement.

Flutti ræðu á samkomu nýnasista

Í fyrra þurfti viðskiptaráðherrann Vilhelm Junnila að biðjast afsökunar á að hafa flutt ræðu á samkomu nýnasista árið 2019 þar sem hann hafði meðal annars uppi gamanmál um töluna 88 sem er eitt af táknum nýnasistahreyfinga og stendur fyrir H, áttunda bókstaf stafrófsins, í tvígang, það er HH fyrir „Heil Hitler“, kveðjuna sem flokkshollir nasistar höfðu sín á milli á velmektarárum þjóðernisflokks Adolfs Hitlers á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Timo Vornanen liggur nú undir grun um að hafa hleypt af skotvopni á almannafæri og beint því að tveimur manneskjum, orsakað almannahættu, haft í hótunum og brotið vopnalög. Verður mál hans sent saksóknara til meðferðar á næstu dögum.

Helsinki Times
YLE (viðskiptaráðherrann baðst afsökunar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert