Byssukúlan sem hæfði Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í eyrað síðasta laugardag skildi eftir sig um tveggja sentimetra skurð.
Að sögn fyrrverandi læknis forsetaframbjóðandans var kúlan minna en 0,6 sentimetrum frá því að fara í höfuðkúpu Trumps.
Þetta kemur fram í bréfi frá lækninum, Ronny Jackson, sem Trump hefur nú birt.
Trump var á stuðningsmannafundi í Butler í Pennsylvaníuríki þegar skotið var að honum. Hæfði byssukúla hann í ofanvert eyrað og mátti sjá blóð renna úr sárinu sem kúlan hafði skapað.
Í bréfinu segir að svæðisbundin bólga í kringum skurðinn sé nú hjöðnuð og sárið tekið að gróa. Ekki hafi þurft að sauma skurðinn. Þó verði heyrn Trumps prófuð vel þegar fram líða stundir.
Á landsfundi repúblikana tilkynnti hann gestum að of sársaukafullt væri fyrir sig að ræða atburðarásina þennan örlagaríka dag og þess vegna myndi hann ekki gera aftur. Lítið er enn vitað um það hvað lá að baki skotárásinni en árásarmaðurinn, Thomas Matthew Crooks, var skotinn á staðnum.