Yfir 20 gráður í öllum fylkjum Noregs

Fádæma veðurblíða hefur leikið við Norðmenn í öllum fylkjum landsins …
Fádæma veðurblíða hefur leikið við Norðmenn í öllum fylkjum landsins í dag eftir misskipt gæði allan júlí þar sem Norðlendingar hafa staðið með veðurpálmann í höndunum aldrei þessu vant. Myndin er frá Tønsberg í Vestfold-fylki í Austur-Noregi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þrátt fyrir að rigning, milt veður og fáir sólskinsdagar hafi einkennt júlímánuð ársins 2024 umfram önnur veðurtengd sérkenni – einkum í syðri hlutum Noregs – kom sjaldgæf staða upp í dag þegar sól skein í heiði og yfir 20 stiga hiti mældist samtímis í öllum fimmtán fylkjum landsins.

„Veðrið næstu vikuna verður breytilegt,“ er setning sem norskir áhorfendur sjónvarpsveðurfrétta hafa fengið að heyra margítrekað það sem af er júlímánuði enda hafa skin og skúrir skipst á – bókstaflega – um gervallan Noreg.

„Í dag er það bara að njóta sólarinnar sem gildir,“ sagði Jakob Århus Mikalsen, íbúi í Stavanger, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK þar sem hann naut 25 stiga hitans í sínum heimabæ sem er raunar þekktari fyrir að þar sé á allt annað en vísan að róa með bongóblíðu yfir sumarmánuðina.

Nýtt hitamet í Troms?

„Í dag þarf enginn að öfunda neinn, veðrið er næstum jafngott hjá öllum,“ sagði Charalampos Sarchosidis, veðurfræðingur á norsku veðurstofunni Meteorologisk institutt, og hafði lög að mæla enda voru þetta hitatölurnar frá Finnmörk í norðri til Suður- og Austur-Noregs, hátt í 2.000 kílómetrum sunnar:

Finnmark-fylki: 22 til 24 gráður

Troms- og Nordland-fylki: 24 til 26 gráður

Vestland-fylki og Þrændalög: 28 til 29 gráður

Rogaland-fylki: 25 til 27 gráður

Suðurland: 22 til 24 gráður

Austurland: 25 til 28 gráður

Norðlendingum er spáð besta veðrinu eftir helgi. „Þangað færi ég ef ég væri að fara í frí í næstu viku,“ segir veðurfræðingurinn Sarchosidis og bætir því við að Norðlendingar standi með veðurpálmann í höndunum það sem af er sumri.

Jafnvel gæti nýtt hitamet litið dagsins ljós í Troms næstu daga og leyst það síðasta af hólmi, 33,5 gráður í Bardufoss hitabylgjusumarið 2018, en þá munaði aðeins hársbreidd að nýtt hitamet mældist í höfuðborginni Ósló þegar hitastig náði 34,6 gráðum en mesti mældi hiti þar er 35,0 gráður og var 21. júlí 1901.

Sjálft Noregshitametið er 35,6 gráður frá Nesbyen í Buskerud 20. júní 1970, tveimur dögum áður en breska rokksveitin Led Zeppelin steig á svið í Laugardalshöllinni á fyrstu Listahátíð í Reykjavík.

NRK

Aftenposten

Bladet Vesterålen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert