Barnavagn fór í veg fyrir lest

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Barnavagn með tvíburasystrum rann á lestarteina í veg fyrir lest sem var á ferð í Sydney í Ástralíu í dag. Önnur stúlkan lést auk föðurins sem reyndi að bjarga börnum sínum. Tvíburarnir voru tveggja ára gamlir.

Að sögn lögreglu lifði önnur stúlkan „fyrir einskæra heppni“ þegar hún lenti á milli lestarteinanna þegar barnavagninn rúllaði af brautarpallinum. 

Stúlkan „slapp að mestu“ við lestina sem fór yfir hana. 

Slepptu barnavagninum örstutt

Foreldrarnir höfðu tekið lyftu niður á brautarpallinn. Þegar þau komu út úr lyftunni slepptu þau kerrunni í örstutta stund, að sögn Pauls Dunstans lögreglustjóra. 

„Hvort það var vindhviða eða – við erum ekki alveg viss – en svo virðist sem barnavagninn hafi strax byrjað að renna í átt að lestarteinunum,“ sagði Dunstan á blaðamannafundi. 

Viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang einungis örfáum mínútum síðar. 

Barnavagninn sást þá undir lestinni, sem hafði hægt á sér áður en hún kom að lestarstöðinni en átti þó ekki að stoppa þar. 

Móðirin í áfalli

„Þú gast heyrt grát koma undan lestinni,“ sagði Dunstan. 

Hann sagði að faðirinn, sem var fertugur, hafi farið sjálfkrafa í „foreldrahlutverkið“ og reynt að bjarga dætrum sínum. 

„Það kostaði hann lífið, en þetta var ótrúlega hugrakkt og hetjulegt viðbragð hjá föðurnum.“

Mæðgurnar sem lifðu af voru fluttar á sjúkrahús og er ástand þeirra stöðugt. 

Móðirin er 39 ára gömul og er í áfalli og á erfitt með að átta sig á hvað gerðist að sögn Dunstans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert