Clinton-hjónin segjast styðja Harris

Hillary og Bill Clinton.
Hillary og Bill Clinton. AFP

Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, fyrrum utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton, hafa lofað ákvörðun Joe Bidens um að draga framboð sitt til forseta til baka.

Lýsa hjónin yfir stuðningi við Kamölu Harris sem forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins og greina frá því í færslu sem þau deila á X.

Hjónin hrósa Biden í hástert fyrir starf hans í þágu þjóðarinnar á meðan hann var forseti. Segja þau forsetann meðal annars hafa komið Bandaríkjunum út úr erfiðum faraldri, skapað milljónir nýrra starfa og styrkt lýðræði landsins.

„Við tökum undir með milljónum Bandaríkjamanna og þökkum Biden forseta fyrir allt sem hann hefur afrekað,“ segja þau og taka einnig fram að þau muni gera allt sem þau geta til að styðja við Kamölu Harris.

Trump veldur áhyggjum

Ekki láta hjónin falla eins fögur orð um fyrrverandi Bandaríkjaforsetann og forsetaframbjóðanda repúblikana, Donald Trump.

„Við höfum gengið í gegnum margar hæðir og lægðir en ekkert hefur gert okkur eins áhyggjufull fyrir hönd lands okkar en ógnin sem fylgir öðru Trump-kjörtímabili,“ segir í yfirlýsingunni og nefna hjónin að Trump hafi því lofað að vera einræðisherra frá degi eitt.

Segja þau að nú sé tíminn til að styðja Kamölu Harris í baráttunni um embættið. Framtíð Bandaríkjanna velti á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert