Drukknaði á vinsælum baðstað

Agder-fylki í Suður-Noregi er fjölsóttur ferðamannastaður yfir sumarmánuðina. Unglingsstúlka drukknaði …
Agder-fylki í Suður-Noregi er fjölsóttur ferðamannastaður yfir sumarmánuðina. Unglingsstúlka drukknaði í vatninu Sandåkerhølen í bænum Gjerstad sem hér sést að hluta, en vatnið á myndinni er Gjerstadvatnet. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jan-Tore Egge

Stúlka á táningsaldri drukknaði af slysförum í Gjerstad í Agder-fylki í Suður-Noregi í gærkvöldi þar sem hún synti í Sandåkerhølen sem er vinsæll baðstaður þar um slóðir.

Barst lögreglu tilkynning laust fyrir klukkan 19 að norskum tíma, um að straumar í vatninu hefðu hrifið stúlkuna með sér, en tvær vinkonur hennar höfðu þá gert íbúa í nágrenninu aðvart og hann kallað lögreglu til.

Héldu björgunarþyrla og sjúkraþyrla þegar á vettvang ásamt mannskap – þar á meðal köfurum frá slökkviliðinu í Arendal og Gjerstad – sem veitti stúlkunni fyrstu hjálp þegar hún fannst, en allt kom fyrir ekki.

Að sögn Øyvind Fagerli, vettvangsstjóra lögreglu á staðnum, gekk illa að koma nauðsynlegum búnaði úr sjúkraflutningaþyrlunni sem kom frá Arendal en viðbragðsaðilar hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð.

Flestar drukknanir í átta ár

Með þessu slysi eru drukknanir í Noregi orðnar 42 það sem af er árinu 2024 ef marka má tölfræði norsku sjóbjörgunarsveitarinnar Redningsselskapet sem starfrækt hefur verið þar í landinu frá árinu 1893 að telja.

Í júní drukknuðu átta manns en samkvæmt tölfræðinni drukkna flestir í Noregi í júlí þegar sumarfrí standa sem hæst og hitastig þykir ákjósanlegt til sunds í stöðuvötnum og sjó. Flestir drukkna við að falla í sjó eða vatn, annaðhvort af landi eða útbyrðis af frístundabátum.

Fyrsta fjórðung ársins drukknuðu tuttugu manns í Noregi sem er hæsta tala í átta ár fyrir þann ársfjórðung. Af þeim voru sautján karlmenn og voru níu þeirra sextugir eða eldri sem er í samræmi við tölfræði undanfarinna ára en hún sýnir að karlmenn yfir sextugu eru algengustu fórnarlömb drukknana í Noregi.

416 drukknanir 2019–2023

Árabilið 2019 til 2023 drukknuðu 416 manns í Noregi samkvæmt skýrslu Redningsselskapet fyrir tímabilið, að meðaltali 83 á ári, en í fyrra drukknuðu 88. Af öllum drukknunum téð tímabil voru 39 prósent fórnarlambanna 61 árs eða eldri, 87 prósent alls hópsins voru karlmenn, konur þrettán prósent, og voru sex af hverjum tíu einir eða einar þegar þeir eða þær drukknuðu.

Af þeim 416, sem drukknuðu þetta fimm ára tímabil, féllu 39 prósent af föstu landi, 27 prósent féllu útbyrðis af frístundabátum en þrettán prósent höfðu lagst til sunds, svo litið sé til þriggja algengustu orsakanna.

Flestir, eða 58 prósent, drukknuðu í sjó, 21 prósent í stöðuvötnum og nítján prósent í ám þegar litið er til þriggja algengustu kringumstæðna.

NRK

VG

TV2

Skýrsla Redningsselskapet fyrir árabilið 2019–2023

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert