Flaug dróna áður en hann hóf að skjóta á Trump

Donald Trump forsetaframbjóðandi særðist á hægra eyra.
Donald Trump forsetaframbjóðandi særðist á hægra eyra. AFP/Rebecca Droke

Thom­as Matt­hew Crooks flaug dróna yfir tún við hliðina á svæðinu þar sem kosningafundur Donalds Trump var haldinn fyrir viku síðan.

Fréttastofa CBS hefur þetta eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar sem þekkja til rannsóknar alríkislögreglunnar á skotárás Crooks. 

Enn er verið að rannsaka nákvæmlega hvenær Crooks flaug drónanum, en talið er að það hafi verið nokkrum klukkustundum eða dögum áður en fundurinn fór fram. 

Dróni fannst í bifreið Crooks, auk tveggja sprengja, skotfæra og skotvestis. 

Heimsótti staðinn áður

Við rannsókn málsins kom í ljós að Crooks hafði leitað að myndum af Butler–býlinu, þar sem fundurinn var haldinn, á netinu. 

Einnig leitaði hann að upplýsingum um vopnasala nærri heimili sínu í Bethel Park. 

Samkvæmt heimildum CBS heimsótti Crooks vettvang að minnsta kosti einu sinni fyrir árásina. 

Leitaði að staðsetningu Trumps

Eftir að staðsetning fundarins var kynnt leitaði Crooks meðal annars að upplýsingum um Trump, Joe Biden Bandaríkjaforseta, hvar Trump yrði þann 13. júlí og landsfund Demókrataflokksins sem verður haldinn í ágúst. 

Á þriðjudag mun Kimber­ly Cheatle, forstjóri bandarísku öryggisþjónustunnar Secret Service, koma fram fyrir eft­ir­lits- og ábyrgðar­nefnd full­trú­a­deild­ar Banda­ríkjaþings til þess að svara fyr­ir aðkomu ör­ygg­isþjón­ust­unn­ar á kosn­inga­fund­in­um. 

Á miðvikudag mun síðan Christopher Wray, forstjóri alríkislögreglunnar, koma fram fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert