Möðrusvarmi sást í Norður-Noregi

Möðrusvarminn hugar að blómum og sækir sér næringu í garði …
Möðrusvarminn hugar að blómum og sækir sér næringu í garði Christine Karijord, blaðamanns og ljósmyndara í Bodø, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að nota myndirnar. Ljósmynd/Christine Karijord

Christine Karijord, blaðamaður og ljósmyndari í Bodø í Nordland-fylki í Noregi, rak upp stór augu þegar hún kom auga á óvæntan gest í garði sínum nú þegar sumarblíðan hefur gælt við íbúa Norður-Noregs sem aldrei fyrr.

Við henni blasti stórt loðið skordýr með mikið vænghaf og var allt dýrið á stærð við lítinn kólibrífugl þar sem það gaf sig að litskrúðugu blómahafinu í garði hennar.

Lágvært suð barst frá dýrinu sem lét ljósmyndun ekki trufla sig við iðju sína og var hið rólegasta þegar Karijord myndaði það.

„Stórfallegt dýr“

Þarna reyndist komið hið suðræna fiðrildi möðrusvarmi, Hyles gallii á latínu en mauresvermer á tungu Norðmanna. Er það af svarmfiðrildaætt. Þetta greindi skordýrafræðingurinn Paul Eric Aspholm við Norsku náttúrufræðastofnunina, NIBIO, fyrir ríkisútvarpið NRK.

Vænghaf dýrsins getur orðið um átta sentimetrar sem er á …
Vænghaf dýrsins getur orðið um átta sentimetrar sem er á pari við lítinn kólibrífugl. Ljósmynd/Christine Karijord

Á tegundin sér heimkynni frá Íberíuskaganum, austur eftir Mið-Evrópu til Alpafjalla og Rússlands og allt til Japans en hefur verið fágætur flækingur á Íslandi, segir af möðrusvarma á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

„Þetta er stórfallegt dýr. Það er eins og lítill kólibrífugl, getur verið kyrrt í loftinu og gefur frá sér suð,“ segir Aspholm við NRK um möðrusvarmann en vænghaf fiðrildisins getur að hans sögn orðið allt að átta sentimetrar og það náð tuttugu kílómetra hraða á flugi.

Óvenjunorðarlega á ferð

„Þeir gera mönnum ekkert mein,“ segir Aspholm og neitar því aðspurður að möðrusvarmi fari um í svermum. „Nei, því miður. Það hefði verið mögnuð upplifun að sjá 200 saman komna á veröndinni hjá sér,“ segir hann.

Karijord kveðst aldrei hafa séð nokkuð í líkingu við möðrusvarmann, …
Karijord kveðst aldrei hafa séð nokkuð í líkingu við möðrusvarmann, ekki einu sinni á lýðnetinu. Hann staldraði við í garði hennar í um klukkustund áður en hann hélt för sinni um Norður-Noreg áfram þar sem nú er einmuna veðurblíða. Ljósmynd/Christine Karijord

Möðrusvarminn sem heimsótti Karijord í Bodø er óvenjunorðarlega á ferð að sögn Frode Ødegaard við náttúrufræðisafn Norska vísinda- og tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU. Hann kveðst sjálfur hafa séð möðrusvarma í Austur-Noregi en aldrei svo norðarlega sem í Bodø.

Ferðalög skordýra séu þó breytingum háð og margar tegundir komi nú nýjar til Noregs vegna hlýnandi loftslags, séu jafnvel sumar hverjar farnar að teljast hversdagsleg sjón þar.

Svarminn er hinn skrautlegasti, „stórfallegt dýr“ eins og fræðimaður Norsku …
Svarminn er hinn skrautlegasti, „stórfallegt dýr“ eins og fræðimaður Norsku náttúrufræðistofnunarinnar, NIBIO, lýsti honum. Ljósmynd/Christine Karijord

Ljósmyndarinn Karijord, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi sitt til notkunar þess myndefnis sem hér birtist, kveðst aldrei hafa séð fiðrildi í líkingu við möðrusvarmann áður, ekki einu sinni á lýðnetinu. Segir hún dýrið að lokum hafa misst þolinmæðina við myndatökurnar og slegið vængjunum lauslega í höfuð hennar áður en það hélt för sinni áfram úr skrúðgarði Karijord í Bodø.

NRK

Gudbrandsdølen Dagningen (möðrusvarmi fannst sem lirfa sumarið 2017)

Umfjöllun Náttúrufræðistofnunar Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert