Sat inni í 43 ár fyrir morð sem hún framdi ekki

Sandra Hemme var látin laus úr fangelsi á föstudag.
Sandra Hemme var látin laus úr fangelsi á föstudag. Ljósmynd/Lögfræðiteymi Söndru Hemme

Kona sem sat í fangelsi í 43 ár fyrir morð sem hún framdi ekki hefur verið látin laus úr haldi. 

BBC greinir frá því að Sandra Hemme hafi verið tvítug þegar hún var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir að stinga bókasafnsfræðinginn Patriciu Jeschke til bana í Missouri–ríki árið 1980. 

Engin sönnunargögn tengdu Hemme við morðið önnur en játning sem hún gaf á geðdeild er hún var undir miklum áhrifum róandi lyfja. 

Hemme er nú 64 ára gömul og er talin hafa setið lengst inni í fangelsi, fyrir glæp sem hún framdi ekki, allra kvenna í bandarískri sögu. 

Lögfræðiteymi hennar sagðist þakklátt að Hemme sé loks sameinuð fjölskyldu sinni. Teymið mun halda áfram að sanna sakleysi hennar, en þrátt fyrir að Hemme sé laus úr haldi er málið enn til rannsóknar.

Lögreglumaður líklega sekur 

Í dóminum kemur fram að lögfræðingar Hemme hafi haft skýra sönnun fyrir sakleysi hennar, þar á meðal sönnunargögn sem voru ekki lögð fram er hún var fyrst dæmd. 

Rannsókn á málinu leiddi í ljós að lögreglan hunsaði sönnunargögn sem bentu til þess að lögreglumaðurinn Michael Holman ætti sök. Holman var síðar dæmdur í fangelsi fyrir annan glæp og lést árið 2015.

Bifreið Holmans sást nærri staðnum sem Jeschke var myrt daginn sem hún lést. Hann var ekki með fjarvistarsönnun og Holman notaði kreditkort Jeschke. Hann vildi meina að hann hefði fundið kortið í skurði. 

Þá fundust eyrnalokkar Jeschke á heimili Holmans. 

Verjendur Hemme höfðu ekki aðgang að þessum upplýsingum á sínum tíma. 

Ekki með fulla meðvitund í yfirheyrslum

Hemme var yfirheyrð nokkrum sinnum af lögreglu á geðdeild er hún var undir áhrifum sljóvgandi lyfja. Hemme hafði hitt geðlækni af og til frá því hún var 12 ára gömul. 

Samkvæmt gögnum málsins var hún ekki með fulla meðvitund í yfirheyrslunum og á tímum gat hún varla haldið höfði og fann fyrir verkjum vegna krampa, sem voru aukaverkanir lyfjanna. 

Niðurstaða dómara er að Hemme hafi ekki átt þátt í morðinu á Jeschke. Hún hafði enga ástæðu til að myrða konuna og engin vitni gátu tengt hana við glæpinn. 

Hitti dóttur sína og barnabarn

Hemme var látin laus úr haldi á föstudag og mun búa hjá systur sinni fyrst um sinn. 

Eftir að hún var látin laus hitti hún dóttur sína og barnabarn í almenningsgarði nærri fangelsinu. 

Faðir hennar gengst nú undir líknandi meðferð. Hemme ætlar að heimsækja hann fljótlega. 

Sean O’Brien lögmaður sagði í viðtali við bandaríska miðla að Hemme þyrfti aðstoð þar sem hún hefur eytt mestum hluta ævinnar í fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert