„Það er stutt á milli stórra atburða“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór

„Þetta eru auðvitað ofboðslega stórar fréttir og þrátt fyrir að það hafi um þetta verið rætt, og ég þar á meðal, þá kom þetta nokkuð óvænt svona á sunnudagseftirmiðdegi í gegnum færslu á X.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um brotthvarf Bidens Bandaríkjaforseta frá framboði sínu. 

„Biden er auðvitað maður sem á gríðarlega langan feril að baki í stjórnmálum og á margan hátt mjög farsælan. En það er að minnsta kosti hægt að segja að það verði áhugavert að fylgjast með næstu dögum og vikum.“

Kosningar í ríki eins og Bandaríkjunum hafi áhrif á söguna

Þegar því er velt upp að ný staða í forsetakosningunum setji ef til vill í gang vissa óvissustöðu í utanríkismálum þegar kemur að því að geta kortlagt alla þá sem Ísland þurfi mögulega að vinna með segir Þórdís Ísland vinna með þá niðurstöðu sem verði. 

„Auðvitað eru fram undan lýðræðislegar kosningar í Bandaríkjunum þar sem almenningur í Bandaríkjunum kýs sér næsta forseta og við vinnum með þá niðurstöðu. En það er ekki hægt að leyna því að það eru ekki venjulegir tímar og Bandaríkin eru ríki þar sem niðurstöður slíkra kosninga geta haft áhrif á söguna, sérstaklega á sögulegum tímum.

Þegar síðan við bætast þessir atburðir í kosningabaráttu, sem er auðvitað hafin í Bandaríkjunum, þá er það sögulegt,“ segir Þórdís. Hún viti ekki til þess að neitt líkt þessari atburðarás hafi gerst áður, að minnsta kosti ekki í seinni tíð.

Demókratar þurfi að vinna hratt

Spurð hvort brotthvarf Bidens hafi legið í loftinu á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins nú nýverið segir hún það eflaust skipta máli hver sé spurður í þeim efnum. 

„Það fer svo sem eftir því hvern þú spyrð en ég meina, hann gaf ekkert út um þetta fyrr en með þessari tilkynningu og það á væntanlega margt eftir að koma í ljós á næstu sólarhringum.“

„Þetta eru alla vega sögulegir atburðir og demókratar í bandaríkjunum þurfa að vinna nokkuð hratt og örugglega næstu skref. Það er stutt á milli stórra atburða,“ segir Þórdís að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert