Allt í járnum hjá Harris og Trump

Kamala Harris og Donald Trump munu líklega mætast í komandi …
Kamala Harris og Donald Trump munu líklega mætast í komandi forsetakosningum í nóvember. Samsett mynd/AFP/Brendan Smialowski/Jim Watson

Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna mun líklega fá forsetaútnefningu Demókrataflokksins í kjölfar þess að Joe Biden ákvað að draga framboð sitt til baka. En hvað segja kannanir okkur um mögulegar kosningar á milli hennar og Donalds Trumps?

Eðli málsins samkvæmt hafa ekki komið kannanir síðan stóru tíðindin bárust í gær um að Biden myndi ekki bjóða sig fram. Samt sem áður hafa verið gerðar kannanir síðustu vikur þar sem kjósendur eru beðnir að velja á milli Harris og Trumps.

CNN tók saman meðaltalið á sex slíkum könnunum og niðurstöður sýna að Trump nýtur 48% stuðnings að meðaltali á landsvísu, en Harris nýtur 47%.

Kannanir gerðar eftir kappræðurnar

CNN gerði meðaltal af niðurstöðum úr könnun CBS News/YouGov sem gerð var dagana 16. til 18. júlí, könnun NBC News sem gerð var dagana 7. til 9. júlí, könnun Fox News sem gerð var dagana 7. til 10. júlí, könnun NPR/PBS News/Marist College sem gerð var dagana 9. til 10. júlí, könnun ABC News/Washington Post/Ipsos sem gerð var dagana 5. til 9. júlí og könnun CNN sem gerð var dagana 28. til 30. júní.

Allt eru þetta kannanir sem gerðar voru eftir kappræður Joes Bidens og Donalds Trumps. Gera má ráð fyrir einhverjum breytingum á þessu fylgi þar sem hún var ekki í forsetaframboði þegar þessar kannanir voru gerðar.

Þá var aðeins ein af þessum könnunum framkvæmd eftir banatilræðið gegn Donald Trump.

Ólíklegt að annar fái útnefninguna

Harris hefur tilkynnt að hún muni bjóða sig fram til forseta og munu demókratar útnefna forsetaefnið sitt á landsfundi sínum í ágúst.

Hún hefur þegar fengið stuðningsyfirlýsingar frá Joe Biden og Clinton-hjónunum. Þrátt fyrir að ekki sé staðfest að hún fái útnefninguna telja álitsgjafar vestanhafs ólíklegt að einhver fái hana frekar. 

Harris er óvenju óvinsæll varaforseti. Samkvæmt FiveThirtyEight eru 38,6% Bandaríkjamanna sátt við störf hennar á sama tíma og 50,4% Bandaríkjamanna eru ósátt við störf hennar. 

CNN

FiveThirtyEight

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert