Ísrael hefur byrjað að bólusetja hermenn sína á Gasa fyrir mænusótt og byrjað að úthluta bóluefni fyrir Palestínumenn á svæðinu eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varaði við mögulegri hættu á faraldri á Gasa.
Í yfirlýsingu hersins sagði að sérstök aðgerð væri hafin til þess að bólusetja alla hermenn hersins sem koma að aðgerðum á Gasa.
Herinn gaf ekki út hversu margir yrðu bólusettir, en þúsundir manna taka þátt í átökunum.
Sex sýni, sem voru tekin á vegum WHO 23. júní, greindu mænusótt á Gasa. Hingað til hafa þó ekki borist tilkynningar um staðfest tilfelli mænusóttar meðal íbúa þar.
Að sögn Ísraelshers hefur nú þegar 300 þúsund skömmtum af bólefni verið dreift til Palestínumanna á Gasa.
Mænusótt, eða lömunarveiki, er smitsjúkdómur af völdum veiru sem lagst getur á taugakerfi líkamans. Sjúkdómurinn er mjög smitandi og getur meðal annars borist í menn með vatni.
Skólp rennur nú á milli margra tjalda í flóttamannabúðum á Gasa og þá er drykkjarvatn af skornum skammti.