Danir láta grafa sig víða

Rathlousdal-greftrunarstaðurinn í útjaðri sveitarfélagsins Odder var opnaður fyrir greftrunum í …
Rathlousdal-greftrunarstaðurinn í útjaðri sveitarfélagsins Odder var opnaður fyrir greftrunum í júní 2022 og er í einkaeigu. Ljósmynd/Sveitarfélagið Odder

Danir gerast nú æ fráhverfari því að láta leggja sig til hinstu hvílu í hefðbundnum kirkjugörðum og kjósa heldur að nýta sér þjónustu fyrirtækisins Skovbegravelse og láta greftra sig í skóglendi hingað og þangað, en Skovbegravelse býður eins og er upp á 22 hvíldarstaði í danskri náttúru.

Þjónustan er ekki ný af nálinni, þvert á móti hefur hún verið í boði allar götur frá árinu 2018 og um eitt þúsund Danir þegar valið skóginn fram yfir kirkjugarðinn.

„Við erum bæði hrifin af skóginum og vatninu,“ segir Anne Kristine Smith frá Sorø í samtali við danska ríkisútvarpið DR. Hún er 74 ára gömul og þau hjónin hafa valið sér hinstu hvílu í skóginum við Ledreborg-höllina í Lejre, suðvestur af Hróarskeldu. Frá grafreit þeirra er útsýn yfir stöðuvatnið Knapsø sem Smith ræðir um.

Áhuginn komið á óvart

„Hvorugt þeirra er í dönsku þjóðkirkjunni og Smith kveðst lítið hrifin af kirkjugörðum. „Þegar ég fer að legstað fjölskyldu minnar verð ég ákaflega sorgmædd. Heimsóknir þangað ýfa sárin upp,“ segir Smith og bætir því við að í skóginum ríki friður og ró og þar geti þau hjónin orðið eitt með náttúrunni.

„Áhuginn á útförum í skóginum hefur komið okkur á óvart,“ segir Jannik Ahlefeldt-Laurvig framkvæmdastjóri Skovbegravelse við DR, „við fáum daglegar fyrirspurnir og mörgum þykir það dásamlegt að eiga þess kost að velja skóginn sem legstað,“ heldur hún áfram.

Meðal staðsetninga í boði hjá fyrirtækinu er Frøkeners Skov, skammt frá Nykøbing á Sjálandi, en hann er í einkaeign Henriks Bøje Nielsens sem gleðst yfir því að jarðvegur hans og gróður muni í framtíðinni líkna aðstandendum framliðinna á sorg þeirra.

Beyki, eik og askur

„Ég kann heilunarkrafti náttúrunnar vel. Náttúran er hvorki góð né ill, hún tekur á móti öllu og öllum,“ segir landeigandinn sem býður hinum deyjandi jörð sína.

Enginn hefur þó verið grafinn í landi Nielsens enn sem komið er, land hans er nýtt á lista Ahlefeldt-Laurvig og fyrirtækis hennar.

„Ég held að hér geti allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Hér eru beyki, eik og askur, ung tré og gömul. Svo það er bara hvað sem hverjum hugnast,“ segir Nielsen.

DR

TV Midtvest

Avisen Danmark

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert