Frederiksen ber ekki vitni í eigin líkamsá­rásarmáli

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld á Kolatorginu í Kaupmannahöfn …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var kýld á Kolatorginu í Kaupmannahöfn í byrjun júní. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, mun ekki bera vitni þegar líkamsárásarmál hennar verður tekið fyrir í ágúst. Hvorki saksóknari né verjandi í málinu hyggjast kalla ráðherrann í vitnastúku og einhverjir úr dönsku lögmannastéttinni eru forviða yfir stöðunni.

Þann 7. júní réðst karlmaður undir áhrifum áfengis og eiturlyfja á Frederiksen er hún gekk á Kolatorginu í Kaupmannahöfn. Nú hefur 39 ára pólsk­ur maður verið ákærður fyrir árásina.

„Ég hef ákveðið að ég ætla ekki að biðja ákæruvaldið um að kalla forsætisráðherrann inn sem vitni,“ segir Henrik Karl Nielsen, verjandi Pólverjans, í svari við fyrirspurn dönsku fréttaveitunnar Ritzau.

Ekstra Bladet og Kristeligt Dagblad greina frá.

Málið verður þing­fest í Héraðsdómi Kaup­manna­hafn­ar 6. og 7. ág­úst.

„Hagstætt fyrir mig“

Fyrir þremur vikum ákvað héraðssaksóknari í Kaupmannahöfn að sleppa því að kalla Frederiksen inn sem vitni en neitaði því jafnframt að ákvörðunin hefði nokkurt með embættissetu ráðherrans að gera.

Ekstra bladet hafði eftir nokkrum lögmönnum á þeim tíma að ákvörðunin væri „óvenjuleg“ og „furðuleg“.

Og verjandi meints árásarmanns sér samt ekki tilefni til að kalla hana sem vitni, enda er það honum í hag að brotaþoli sé ekki viðstaddur.

„Sem verjandi þarf ég ég nú að vinna með alls konar óvissu og þegar ég sit með skjólstæðingi sem man ekki smáatriði er hagstætt fyrir mig að brotaþolinn komi ekki til með að segja hvað hún hefur upplifað,“ skrifar Nielsen enn fremur.

Neitar sök

Árásarmaðurinn er sagður hafa kýlt Frederiksen krepptum hnefa í hægri öxl hennar. Ákæruvaldið hefur nú kært pólskan mann og krefst fangelsisvistar, brottvísunar og endurkomubanns til sex ára. Pólverjinn neitar sök.

Aftur á móti geta fleiri borið vitni.

„Það er fjöldi vitna sem sá atvikið en hér verður það áskorun hvort þau geta skýrt það sem þau í og raun og veru sáu,“ segir einnig í svari Nielsens.

„Eða hvort þeirra minni sé bjagað þar sem almenningsálitið er að hún hafi hlotið högg, sem gervöll Danmörk hefur nú lesið og heyrt í næstum tvo mánuði.“

Ráðherrann sagði t.d. í færslu á samfélagsmiðlum í kjölfar árásarinnar að hún hefði fengið hálshnykk en verjandinn segir engin gögn staðfesta það. Í raun séu ekki mörg sönnunargögn í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert