Hóta Norðmönnum árásum

Fólk á rölti um Akerbryggjuna í Ósló. Frá Íran berast …
Fólk á rölti um Akerbryggjuna í Ósló. Frá Íran berast hótanir um árásir á gyðingleg og bandarísk skotmörk í Noregi, þessu miðlaði norska sendiráðið í írönsku höfuðborginni Teheran til norskra stjórnvalda fyrir helgi. mbl.is/Golli

Norskum yfirvöldum barst fyrir helgi aðvörun frá norska sendiráðinu í Teheran, höfuðborg Írans, með þeim upplýsingum að óþekktir aðilar legðu á ráðin um að gera árásir á gyðingleg og bandarísk skotmörk í Noregi.

John Arne Moen, formaður Gyðingasamfélagsins í Þrándheimi, Det jødiske samfunn i Trondheim, DJST, staðfestir við norska dagblaðið VG að honum hafi verið tilkynnt um það á laugardagsmorgun að ógn steðjaði að fyrrgreindum aðilum, en öryggislögreglan PST telur að fyrst og fremst sé átt við byggingar, stofnanir og samtök með tengsl við gyðinga og Ísraelsríki.

Sú ályktun PST er þó frá því í nóvember í fyrra þegar hún gaf út áhættumat sitt, en nú vill stofnunin hvorki staðfesta né hafna því við blaðamann VG að gögn, sem breyti síðasta mati, teljist fram komin.

Berast sífellt upplýsingar

„PST hefur í ljósi stríðsins á Gasasvæðinu metið það svo að aukin hætta sé á árásum á gyðingleg og bandarísk skotmörk í Noregi. Það mat er enn í gildi,“ segir Eirik Veum, ráðgjafi hjá PST, í samtali við VG. „Svo er það einu sinni þannig að okkur berast sífellt upplýsingar sem við vinnum með, en okkar áhættumat hvað þessi skotmörk snertir hefur ekki tekið breytingum,“ segir hann enn fremur.

Formaður DJST, Moen, kveðst vita að hótunin eigi rætur sínar að rekja til Írans, honum sé hins vegar ekki kunnugt um hvernig hún hafi komist á borð norskra stjórnvalda. „Lögreglan hafði samband við öryggismálafulltrúann [hjá DJST] í Þrándheimi. Hann hafði svo samband við mig,“ útskýrir Moen.

Trond Hangaas, aðgerðastjórnandi lögreglunnar í Þrændalögum, segir lögreglu þar fylgjast grannt með vissum stöðum en ekkert hafi borið til tíðinda.

Gera ekki greinarmun

Öryggislögreglan PST nefnir gyðinga og Ísrael sérstaklega í áhættumati sínu og útskýrir Lars Lilleby, yfirmaður andhryðjuverkadeildar PST, þá sundurgreiningu þannig að margir öfgamenn geri ekki greinarmun á gyðingum og ísraelska ríkinu.

Hótunum hefur einnig verið beint að Svíum síðustu misseri en eftir innrásina í Ísrael í október 2022 jókst umfang þeirra til muna og nutu gyðingar í Svíþjóð um tíma lögregluverndar vegna væringanna milli Ísraelsríkis og Hamas-samtakanna.

VG

NRK

Vårt Land

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert