Kamala Harris, fyrsti svarti kvenkyns varaforseti í sögu Bandaríkjanna og af asískum uppruna, stefnir á að brjóta á ný blað í sögubókunum með því að vera fyrsti kvenkyns forseti í sögu Bandaríkjanna.
Á sama tíma og Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri, greindi hann frá því að hann styddi Kamölu Harris til að verða frambjóðandi demókrata.
„Það er minn heiður að hljóta stuðning forsetans og mín ætlun er að hljóta þessa útnefningu,“ sagði Harris í tilkynningu í gær.
Fátt virðist ætla að koma í veg fyrir að hún fái útnefningu Demókrataflokksins og mun hún því líklega mæta Donald Trump í forsetakosningunum 5. nóvember.
Sem varaforseti hefur hún þá átt erfitt með að skilgreina sig almennilega og hefur verið gagnrýnd fyrir slakan árangur í málefnum sem henni var falið að vinna úr. Eru það mál eins og straumur ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna og að tryggja frekar kosningarétt fólks.
Margar milljónir ólöglegra innflytjenda hafa komið yfir landamærin frá Mexíkó og hafa hægrimenn sagt hana hafa klúðrað þessum málum. Á sama tíma urðu hörðustu vinstrimenn ósáttir við hana þegar hún sagði förufólkinu að „koma ekki“ til Bandaríkjanna.
Þá var hún fengin til að vinna með þinginu að því að koma frumvarpi í gegn sem sneri í kosningaréttindum fólks. Það frumvarp strandaði í þinginu.
Harris er óvenju óvinsæll varaforseti. Samkvæmt FiveThirtyEight eru 38,6% Bandaríkjamanna sáttir við störf hennar á sama tíma og 50,4% Bandaríkjamanna eru ósáttir við störf hennar.
Ólíkt Biden og öðrum forsetaframbjóðendum í sögunni þá er Harris þekkt vegna reynslu hennar af réttarkerfinu, ekki á stjórnmálaferli sínum eða lagasetningu.
Harris fæddist 20. október 1964 í Oakland í Kaliforníu. Hún lauk námi frá Howard University í Washington DC. Varð hún síðar saksóknari og síðar yfirsaksóknari í San Francisco og síðar ríkissaksóknari í Kaliforníu árið 2010. Varð hún þar með fyrsti svarti ríkissaksóknari ríkisins.
Árið 2016 bauð hún sig fram í öldungadeildina og hlaut brautargengi, en Harris varð önnur svarta konan til að vera kosin í öldungadeildina frá upphafi. Árið 2017 tók hún til starfa í þinginu og vakti athygli fyrir beinskeyttar yfirheyrslur sínar yfir ráðamönnum í ríkisstjórn Trumps.
Harris á ættir að rekja til Suður-Asíu, en móðir hennar kom sem innflytjandi til Bandaríkjanna frá Indlandi árið 1958, en faðir hennar kom frá Jamaíku árið 1961.
Harris bauð sig fram í forvali demókrata fyrir síðustu forsetakosningar, þar sem Biden var einn af mótframbjóðendum hennar.
Lenti þeim meðal annars saman í fyrstu kappræðunum þar sem hún gagnrýndi Biden fyrir andstöðu sína á áttunda áratugnum við að samþykkja lög sem áttu að þvinga skóla til frekari aðlögunar kynþátta.
Þrátt fyrir uppákomuna ákvað Biden að velja Harris sem varaforsetaefni sitt, en hún dró framboð sitt til baka sökum lítils fylgis.
Harris er mikill umhverfisverndarsinni og í forvalinu hafði hún meðal annars á stefnu sinni að banna bergbrot í leit að jarðefnaeldsneyti, sem oftast er kallað „fracking“.
Hún hefur verið ötull talsmaður fyrir því að konur hafi aðgang að fóstureyðingum og í framboði sínu var hún mótfallin því að halda skattalækkunum Donalds Trumps frá árinu 2017.
Það er ekki alltaf augljóst hvar hún stendur í ákveðnum málum en hún hefur reynt að brúa bilið á milli vinstrisinnuðustu fylkinga flokksins við þær fylkingar sem eru næst miðjunni. Í samfélagsmálum hefur hún þó verið með frjálslyndustu demókrötunum.
Harris myndar sér skoðanir eftir að hafa ígrundað mál ítarlega og með hliðsjón af skoðanakönnunum, að sögn fólks sem hefur unnið með henni í gegnum árin. Hefur hún þá verið treg til að styðja alltaf við yfirgripsmiklar stefnubreytingar.
Frammistaða Harris sem saksóknari hefur á tíðum hjálpað henni í kosningabaráttum en einnig reynst henni illa.
Meðal þess sem var umdeilt hjá henni var hversu margir voru sóttir til saka vegna neyslu maríjúana og stuðningur hennar við lög sem gerði ríkinu kleift að sækja foreldra til saka ef börn þeirra misstu af of mörgum skóladögum.
Frægt er þegar Tulsi Gabbard las henni pistilinn í kappræðum demókrata í forvalinu fyrir síðustu kosningar.
„Það eru of mörg dæmi til að nefna, en hún setti 1.500 manns í fangelsi fyrir brot á marijúanalögum og hló síðan að því þegar hún var spurð hvort hún hefði reykt marijúana. Hún kom í veg fyrir birtingu sönnunargagna sem hefðu frelsað saklausan mann frá dauðadómi þar til dómstólar neyddu hana til þess.
Hún hélt fólki í fangelsi umfram refsingu sína til að nota það sem ódýrt vinnuafl fyrir Kaliforníu-ríki. Það er engin afsökun fyrir því og fólkið sem varð fyrir því í þinni stjórn sem saksóknari, þú skuldar því afsökunarbeiðni,“ sagði Gabbard.
Harris átti erfitt uppdráttar eftir þessar kappræður.
Álitsgjafar vestanhafs telja að Kamala Harris muni reyna að bera saman sinn feril sem saksóknari til margra ára við Donald Trump, sem var nýlega sakfelldur og hefur verið tíður gestur í dómstólum að undanförnu.