Hverra kosta völ eiga demókratar?

AFP/Andres Caballero-Reynolds.

Í kjölfar brotthvarfs Joes Bidens Bandaríkjaforseta á elleftu stundu, úr harðnandi kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar vestanhafs í nóvember, munu flokkssystkini forsetans fráfarandi „hefja gagnsætt og skipulegt ferli þess að stíga fram sem sameinaður Demókrataflokkur með frambjóðanda sem er í stakk búinn til að sigra Donald Trump í nóvember“, eins og Jaime Harrison flokksformaður sagði í yfirlýsingu í gær.

Rétt rúmir eitt hundrað dagar eru til stefnu fram að kosningum og veltir AFP-fréttastofan upp þeim möguleikum er demókrötum standa til boða á lokaspretti sem nálgast hröðum skrefum.

Landsfundurinn í uppnámi

„Kjörmenn okkar [Demókrataflokksins] eru þess albúnir að taka þá skyldu sína alvarlega að færa Bandaríkjamönnum frambjóðanda án tafar,“ sagði Harrison enn fremur í gær og bætti því við að valið færi auðvitað fram í fullu samræmi við reglur flokksins.

Slík breyting á síðustu stundu gæti, að mati blaðamanna AFP, fært bandarísk stjórnmál áraraðir aftur – til þess tíma þegar flokksgæðingar réðu ráðum sínum í reykfylltum bakherbergjum og sömdu þar sín á milli um frambjóðanda sem svo þurfti að kjósa um innan flokksins.

Rifja þeir AFP-menn upp þann örlagaríka dag 31. mars 1968 þegar þáverandi forseti, Lyndon B. Johnson, varpaði þeirri sprengju inn í umræðuna, í miðju Víetnam-stríði, að hann kæmi ekki til með að sækjast eftir endurkjöri.

Var landsfundur Demókrataflokksins í hreinu uppnámi vegna yfirlýsingarinnar, þrátt fyrir að hún kæmi mun fyrr fram í aðdraganda kosninganna þá en tilkynning Bidens í gærkvöldi, og vakti útnefning flokksins á Hubert Humphrey, sem var hlynntur stríðinu, mikinn úlfaþyt meðal flokksmanna.

Eðlilegt – ekki sjálfsagt

Þegar í kjölfar skelfilegrar frammistöðu Bidens í kappræðunum við Trump 27. júní, þar sem vart stóð steinn yfir steini í málflutningi forsetans fyrir mismælum og tafsi, kviknuðu háværar vangaveltur um hver tekið gæti við keflinu úr hendi forsetans sem þótti augljóslega ekki tilbúinn í fjögurra mánaða gallharða rimmu við Trump.

Eðlilegt – en ekki sjálfsagt – hefði þótt að Harris varaforseti leysti Biden af hólmi sem forsetaefni Demókrataflokksins. Til þess studdi Biden hana með orðum sínum við brotthvarf sitt úr framboði og ekki er annað að heyra á varaforsetanum en hún sé tilbúin í hólmgönguna gegn Trump.

Ekki er þó að mati AFP hægt að líta fram hjá því að fleiri sterkir kandídatar gætu orðið um hituna enda hafi nöfn þeirra ítrekað verið nefnd.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert