Joe Biden: Slakur námsmaður sem varð forseti

Joe Biden mun klára embættisdvöl sína í janúar árið 2025. …
Joe Biden mun klára embættisdvöl sína í janúar árið 2025. Árið 1973 var hann kjörinn í öldungadeild Bandaríkjaþings. Samsett mynd/AFP/Saul Leob/Bandaríska ríkið

Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, 46. for­seti Banda­ríkj­anna á merki­leg­an fer­il að baki í stjórn­mál­um.

Hann hef­ur nú ákveðið að draga fram­boð sitt til for­seta til baka og sæk­ist því ekki eft­ir end­ur­kjöri.

Hann tók við embætti for­seta 20. janú­ar 2021 og hef­ur embætt­is­dvöl hans ein­kennst af heims­far­aldri, stríði í Úkraínu og Miðaust­ur­lönd­um, verðbólgu, átök­um við Don­ald Trump, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta, umræða um ald­ur hans og viðskipta­brask Hun­ter Bidens, son­ar hans.

Einn sá óvin­sæl­asti

Sem for­seti hef­ur hann státað sig af ýmsu eins og því að NATO hafi stækkað, aðgerðum vegna lofts­lags­breyt­inga, upp­bygg­ingu innviða, stuðning við Úkraínu og fyr­ir að hafa komið banda­ríska hag­kerf­inu aft­ur af stað eft­ir heims­far­ald­ur­inn.

Sam­kvæmt mæl­ing­um Gallup er Joe Biden bú­inn að vera einn óvin­sæl­asti for­seti Banda­ríkj­anna frá því að mæl­ing­ar hóf­ust árið 1956 en sjálf­ur hef­ur hann gert lítið úr skoðana­könn­un­um.

Hann var í 36 ár öld­unga­deild­arþingmaður fyr­ir heimaríki sitt, Delaware, og sat í og gegndi for­mennsku í ótal ráðum og nefnd­um.

Ævin­lega hef­ur hann verið óðfús að bjóða sig fram til frek­ari embætta og sótt­ist þris­var eft­ir til­nefn­ingu flokks síns til for­seta­embætt­is­ins, 1988, 2007 og árið 2020.

Fyrstu tvö skipt­in ákvað hann að draga fram­boð sitt til baka en í þriðja skiptið fékk hann til­nefn­ing­una eft­ir harða bar­áttu Við Bernie Sand­ers og fleiri demó­krata.

Mætti hann Don­ald Trump og sigraði í æsispenn­andi kosn­ing­um. 

Mynd af Biden frá því að hann var formaður utanríkismálanefndar …
Mynd af Biden frá því að hann var formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar öld­unga­deild­ar­inn­ar. AFP/​Paul J. Rich­ards

Biden verið hagv­an­ur í Washingt­on

Joe Biden hef­ur verið þekkt and­lit í banda­rísk­um stjórn­mál­um í ára­tugi, hagv­an­ur í Washingt­on og hef­ur átt sam­skipti við hátt­setta emb­ætt­is­menn og þjóðhöfðingja um all­an heim.

Á þing­ferl­in­um var hon­um jafn­an lýst sem líf­leg­um og bar­áttuglöðum póli­tík­us, áhrifa­mikl­um ræðumanni, að vísu full­orðmörg­um og með til­hneig­ingu til að koma klaufa­lega fyr­ir sig orði, alþýðleg­um en þó mynd­ug­um mjög.

Sem for­seti virðist ald­ur­inn hafa náð hon­um en hann hef­ur gert mörg mis­tök í ræðuhöld­um eins og að tafsa, segja vit­lausa hluti, gleyma og blanda sam­an nöfn­um og fleira.

Joe Biden er fyrsti forsetinn frá því Lyndon B. Johnson …
Joe Biden er fyrsti for­set­inn frá því Lyndon B. John­son var for­seti til að sækj­ast ekki eft­ir öðru kjör­tíma­bili. AFP/​Andrew Harnik

Stamaði mikið sem barn

Biden, sem er elst­ur fjög­urra systkina, var tíu ára þegar for­eldr­ar hans; móðir af írsk­um upp­runa og faðir af ensk­um, ákváðu að flytj­ast bú­ferl­um með börn sín frá Penn­sylvan­íu til Claymont í Delaware, þar sem at­vinnu­horf­ur voru væn­legri.

Föður­fjöl­skylda hans hafði verið vellauðug, en tapað öllu sínu og því var tími póló­leikja og snekkju­sigl­inga Josephs eldri löngu liðinn þegar hann fékk starf sem bíla­sali í New Castle-sýslu og fjöl­skyld­an festi ræt­ur í Delaware. Þau töld­ust til millistétt­ar­inn­ar þótt fá­tæk væru.

Biden stamaði mikið sem barn og ung­ling­ur en tókst að ná tök­um á vand­an­um með því að æfa sig löng­um stund­um í ljóðal­estri fyr­ir fram­an speg­il.

Biden að undirbúa sig fyrir blaðamannafund árið 2005.
Biden að und­ir­búa sig fyr­ir blaðamanna­fund árið 2005. AFP/​Getty Ima­ges/​Alex Wong

Slak­ur og latur námsmaður

Hann var slak­ur námsmaður, latur að eig­in sögn, en góður í íþrótt­um og sjálf­skipaður leiðtogi nem­enda í Arch­m­ere Aca­demy-fram­halds­skól­ann í Claymont, þaðan sem hann út­skrifaðist 1961. Ekki tók hann sig á svo heitið gæti þegar í Delaware-há­skól­ann var komið, var 506. í röðinni af 688 nem­end­um, sem út­skrifuðust með BA í sögu og stjórn­mála­fræði 1965.

Því var ekki úr háum söðli að detta þegar hann varð 76. af 85 við út­skrift úr Syracu­se-laga­há­skól­an­um í New York 1968.

Fyrsta árið hafði ekki verið gæfu­legt því Biden var sakaður um ritstuld úr laga­tíma­riti í prófi. Óvilj­andi, sagði hann, og bar við að sér hefði ekki verið kunn­ugt um regl­ur um til­vitn­an­ir. Hann fékk F, en var leyft að taka önn­ina aft­ur og F-ið var látið niður falla. Geymt en þó ekki gleymt, eins og nú hef­ur komið á dag­inn.

Joe Biden ásmt Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Joe Biden ásmt Bill Cl­int­on, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta. AFP/​Joyce Naltchay­an

Upp­tek­inn af borg­ara­leg­um gild­um

Á sjö­unda ára­tugn­um fékk Biden fimm sinn­um frest­un á herkvaðningu, í fyrsta skipti 1963 og síðasta 1968 þegar Víet­nam­stríðið stóð sem hæst og staða hans var end­ur­skoðuð. Hon­um var hafnað á þeirri for­sendu að hann þjáðist af asma sem ung­ling­ur.

Biden kveðst hvorki hafa tekið þátt í and­ófi gegn stríðinu né skrýðst upp­lituðum hippa­bol, held­ur verið upp­tek­inn af borg­ara­leg­um gild­um svo sem hjóna­bandi sínu og laga­námi.

Hann hafði kvænst Neilia Hun­ter 1966. Þau eignuðust þrjú börn á þrem­ur árum, 1969-1971 og allt virt­ist ganga þeim í hag­inn.

Joe Biden á blaðamannafundi með George W. Bush.
Joe Biden á blaðamanna­fundi með Geor­ge W. Bush. AFP/​Mike Theiler

Kos­inn í sveit­ar­stjórn

Að námi loknu hóf Biden störf sem lög­fræðing­ur í Wilm­ingt­on og var fljót­lega kos­inn í sveit­ar­stjórn New Castle-sýslu og sat þar til 1972 þegar hann, mörg­um til undr­un­ar, vann sæti Delaware í öld­unga­deild­inni. Hann hafði háð kosn­inga­bar­átt­una af vanefn­um, en með góðan málstað; lagt áherslu á brott­flutn­ing her­manna frá Víet­nam, um­hverf­is­mál, mann­rétt­indi og „breyt­ing­ar“.

Hin, unga og geðþekka fjöl­skylda er sögð hafa átt sinn þátt í sigr­in­um, auk eld­móðs hans sjálfs og hæfi­leika til að ná til kjós­enda.

Mik­il harma­saga

En fljótt skip­ast veður í lofti. Hinn 18. des­em­ber sama ár lentu eig­in­kona hans og börn í al­var­legu bíl­slysi sem dró hana og nokk­urra mánaða dótt­ur þeirra til dauða. Þótt son­un­um tveim­ur væri vart hugað líf náðu þeir að lok­um full­um bata.

Biden íhugaði að af­sala sér sæti sínu í öld­unga­deild­inni til að geta ann­ast dreng­ina, en lét und­an for­töl­um og sór embættiseið sinn við sjúkra­beð þeirra 3. janú­ar 1973, aðeins þrítug­ur að aldri.

Eins og alsiða er í Banda­ríkj­un­um gekk maður und­ir manns hönd að reyna að para ein­hleypt fólk sam­an. Biden kynnt­ist Jill Tracy Jac­obs, kenn­ara frá Penn­sylvan­íu, á „blindu stefnu­móti“, sem bróðir hans hafði komið á. Þau gift­ust 1977 og eignuðust dótt­ur 1981.

Joseph R. „Beau“ Biden, ann­ar son­ur Joe Bidens, lést svo árið 2015 eft­ir bar­áttu við krabba­mein í heila.

Biden er trú­ræk­inn maður og hef­ur sagt að kaþólska trú hans hafi hjálpað hon­um í gegn­um þessa miklu harma­sögu.

Joe Biden ávarpaði þjóðina í kjölfar þess að Donald Trump …
Joe Biden ávarpaði þjóðina í kjöl­far þess að Don­ald Trump var skot­inn. AFP/​Erin Schaff

Aðkoma að sögu­fræg­um yf­ir­heyrsl­um

Tæp­ast er hægt að fjalla um Biden án þess að nefna aðkomu hans að tveim­ur sögu­fræg­ustu yf­ir­heyrsl­um banda­rísku dóms­mála­nefnd­ar­inn­ar yfir til­nefnd­um hæsta­rétt­ar­dóm­ur­um.

Ann­ars veg­ar 1987, skömmu fyr­ir veik­ind­in, þegar hann stjórnaði yf­ir­heyrsl­um yfir Robert Bork, íhaldskurfi mikl­um að mati Edw­ards Kenn­e­dys og fleiri frjáls­lyndra demó­krata, sem for­dæmdu Bork harðlega. Hon­um var hafnað en Biden hampað fyr­ir að kom­ast lip­ur­lega frá verk­efn­inu.

Hins veg­ar 1991 þegar Clarence Thom­as var til­nefnd­ur í embættið, en hann var ásakaður um að hafa áreitt fyrr­ver­andi sam­starfs­konu sína, Anitu Hill, kyn­ferðis­lega.

Yf­ir­heyrsl­an var í beinni út­send­ingu á öll­um stærri sjón­varps­stöðvum Banda­ríkj­anna og þótti far­sa­kennd. Til þess var tekið að Biden var stund­um svo orðmarg­ur að Thom­as var bú­inn að stein­gleyma spurn­ing­unni þegar hann loks þagnaði.

Þótt marg­ir stæðu með Thom­as var afar um­deilt þegar Biden staðfesti til­nefn­ingu hans í embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara, sér­stak­lega urðu femín­ist­ar æfir. Thom­as gegn­ir embætt­inu enn þá.

Þótti vin­sæll vara­for­seti

Hann var vara­for­seti Barack Obama og þótti nokkuð vin­sæll meðal al­menn­ings.

Aldrei hef­ur al­menni­lega legið fyr­ir hversu gott sam­band þeirra fé­laga var og hafa marg­ir kunn­ug­ir sagt að Obama hafi beðið Biden um að víkja fyr­ir Hillary Cl­int­on fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar 2016.

Á það ekki að hafa fallið vel í kramið hjá Biden.

Joe Biden ásamt Barack Obama.
Joe Biden ásamt Barack Obama. AFP/​Emm­anu­el Dunand
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert