Joe Biden: Slakur námsmaður sem varð forseti

Joe Biden mun klára embættisdvöl sína í janúar árið 2025. …
Joe Biden mun klára embættisdvöl sína í janúar árið 2025. Árið 1973 var hann kjörinn í öldungadeild Bandaríkjaþings. Samsett mynd/AFP/Saul Leob/Bandaríska ríkið

Joe Biden, fullu nafni Joseph Robinette Biden, 46. forseti Bandaríkjanna á merkilegan feril að baki í stjórnmálum.

Hann hefur nú ákveðið að draga framboð sitt til forseta til baka og sækist því ekki eftir endurkjöri.

Hann tók við embætti forseta 20. janúar 2021 og hefur embættisdvöl hans einkennst af heimsfaraldri, stríði í Úkraínu og Miðausturlöndum, verðbólgu, átökum við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, umræða um aldur hans og viðskiptabrask Hunter Bidens, sonar hans.

Einn sá óvinsælasti

Sem forseti hefur hann státað sig af ýmsu eins og því að NATO hafi stækkað, aðgerðum vegna loftslagsbreytinga, uppbyggingu innviða, stuðning við Úkraínu og fyrir að hafa komið bandaríska hagkerfinu aftur af stað eftir heimsfaraldurinn.

Samkvæmt mælingum Gallup er Joe Biden búinn að vera einn óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá því að mælingar hófust árið 1956 en sjálfur hefur hann gert lítið úr skoðanakönnunum.

Hann var í 36 ár öld­unga­deild­arþingmaður fyr­ir heimaríki sitt, Delaware, og sat í og gegndi formennsku í ótal ráðum og nefnd­um.

Ævin­lega hef­ur hann verið óðfús að bjóða sig fram til frek­ari embætta og sóttist þrisvar eft­ir til­nefn­ingu flokks síns til for­seta­embætt­is­ins, 1988, 2007 og árið 2020.

Fyrstu tvö skiptin ákvað hann að draga framboð sitt til baka en í þriðja skiptið fékk hann tilnefninguna eftir harða baráttu Við Bernie Sanders og fleiri demókrata.

Mætti hann Donald Trump og sigraði í æsispennandi kosningum. 

Mynd af Biden frá því að hann var formaður utanríkismálanefndar …
Mynd af Biden frá því að hann var formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar. AFP/Paul J. Richards

Biden verið hagvanur í Washington

Joe Biden hefur verið þekkt and­lit í banda­rísk­um stjórn­mál­um í áratugi, hagv­an­ur í Washington og hef­ur átt sam­skipti við hátt­setta emb­ætt­is­menn og þjóðhöfðingja um all­an heim.

Á þingferlinum var hon­um jafn­an lýst sem líf­leg­um og bar­áttuglöðum póli­tík­us, áhrifa­mikl­um ræðumanni, að vísu full­orðmörg­um og með til­hneig­ingu til að koma klaufa­lega fyr­ir sig orði, alþýðleg­um en þó mynd­ug­um mjög.

Sem forseti virðist aldurinn hafa náð honum en hann hefur gert mörg mistök í ræðuhöldum eins og að tafsa, segja vitlausa hluti, gleyma og blanda saman nöfnum og fleira.

Joe Biden er fyrsti forsetinn frá því Lyndon B. Johnson …
Joe Biden er fyrsti forsetinn frá því Lyndon B. Johnson var forseti til að sækjast ekki eftir öðru kjörtímabili. AFP/Andrew Harnik

Stamaði mikið sem barn

Biden, sem er elst­ur fjög­urra systkina, var tíu ára þegar for­eldr­ar hans; móðir af írsk­um upp­runa og faðir af ensk­um, ákváðu að flytj­ast bú­ferl­um með börn sín frá Pennsylvaníu til Claymont í Delaware, þar sem at­vinnu­horf­ur voru væn­legri.

Föður­fjöl­skylda hans hafði verið vellauðug, en tapað öllu sínu og því var tími póló­leikja og snekkju­sigl­inga Josephs eldri löngu liðinn þegar hann fékk starf sem bíla­sali í New Castle-sýslu og fjöl­skyld­an festi ræt­ur í Delaware. Þau töld­ust til millistétt­ar­inn­ar þótt fá­tæk væru.

Biden stamaði mikið sem barn og ung­ling­ur en tókst að ná tök­um á vand­an­um með því að æfa sig löng­um stund­um í ljóðal­estri fyr­ir fram­an speg­il.

Biden að undirbúa sig fyrir blaðamannafund árið 2005.
Biden að undirbúa sig fyrir blaðamannafund árið 2005. AFP/Getty Images/Alex Wong

Slakur og latur námsmaður

Hann var slak­ur námsmaður, latur að eig­in sögn, en góður í íþrótt­um og sjálf­skipaður leiðtogi nem­enda í Archmere Academy-fram­halds­skól­ann í Claymont, þaðan sem hann út­skrifaðist 1961. Ekki tók hann sig á svo heitið gæti þegar í Delaware-há­skól­ann var komið, var 506. í röðinni af 688 nem­end­um, sem út­skrifuðust með BA í sögu og stjórn­mála­fræði 1965.

Því var ekki úr háum söðli að detta þegar hann varð 76. af 85 við út­skrift úr Syracuse-laga­há­skól­an­um í New York 1968.

Fyrsta árið hafði ekki verið gæfu­legt því Biden var sakaður um ritstuld úr laga­tíma­riti í prófi. Óvilj­andi, sagði hann, og bar við að sér hefði ekki verið kunn­ugt um regl­ur um til­vitn­an­ir. Hann fékk F, en var leyft að taka önn­ina aft­ur og F-ið var látið niður falla. Geymt en þó ekki gleymt, eins og nú hef­ur komið á dag­inn.

Joe Biden ásmt Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Joe Biden ásmt Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. AFP/Joyce Naltchayan

Upptekinn af borgaralegum gildum

Á sjö­unda ára­tugn­um fékk Biden fimm sinn­um frest­un á herkvaðningu, í fyrsta skipti 1963 og síðasta 1968 þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst og staða hans var end­ur­skoðuð. Hon­um var hafnað á þeirri for­sendu að hann þjáðist af asma sem ung­ling­ur.

Biden kveðst hvorki hafa tekið þátt í and­ófi gegn stríðinu né skrýðst upp­lituðum hippa­bol, held­ur verið upp­tek­inn af borg­ara­leg­um gild­um svo sem hjóna­bandi sínu og laga­námi.

Hann hafði kvænst Neilia Hunter 1966. Þau eignuðust þrjú börn á þrem­ur árum, 1969-1971 og allt virt­ist ganga þeim í hag­inn.

Joe Biden á blaðamannafundi með George W. Bush.
Joe Biden á blaðamannafundi með George W. Bush. AFP/Mike Theiler

Kosinn í sveitarstjórn

Að námi loknu hóf Biden störf sem lög­fræðing­ur í Wilmington og var fljót­lega kos­inn í sveit­ar­stjórn New Castle-sýslu og sat þar til 1972 þegar hann, mörg­um til undr­un­ar, vann sæti Delaware í öld­unga­deild­inni. Hann hafði háð kosn­inga­bar­átt­una af vanefn­um, en með góðan málstað; lagt áherslu á brott­flutn­ing her­manna frá Víet­nam, um­hverf­is­mál, mann­rétt­indi og „breyt­ing­ar“.

Hin, unga og geðþekka fjöl­skylda er sögð hafa átt sinn þátt í sigr­in­um, auk eld­móðs hans sjálfs og hæfi­leika til að ná til kjós­enda.

Mikil harmasaga

En fljótt skip­ast veður í lofti. Hinn 18. des­em­ber sama ár lentu eig­in­kona hans og börn í al­var­legu bíl­slysi sem dró hana og nokk­urra mánaða dótt­ur þeirra til dauða. Þótt son­un­um tveim­ur væri vart hugað líf náðu þeir að lok­um full­um bata.

Biden íhugaði að af­sala sér sæti sínu í öld­unga­deild­inni til að geta ann­ast dreng­ina, en lét und­an for­töl­um og sór embættiseið sinn við sjúkra­beð þeirra 3. janú­ar 1973, aðeins þrítug­ur að aldri.

Eins og alsiða er í Banda­ríkj­un­um gekk maður und­ir manns hönd að reyna að para ein­hleypt fólk sam­an. Biden kynnt­ist Jill Tracy Jac­obs, kenn­ara frá Pennsylvaníu, á „blindu stefnu­móti“, sem bróðir hans hafði komið á. Þau gift­ust 1977 og eignuðust dótt­ur 1981.

Joseph R. „Beau“ Biden, annar sonur Joe Bidens, lést svo árið 2015 eftir baráttu við krabbamein í heila.

Biden er trúrækinn maður og hefur sagt að kaþólska trú hans hafi hjálpað honum í gegnum þessa miklu harmasögu.

Joe Biden ávarpaði þjóðina í kjölfar þess að Donald Trump …
Joe Biden ávarpaði þjóðina í kjölfar þess að Donald Trump var skotinn. AFP/Erin Schaff

Aðkoma að sögufrægum yfirheyrslum

Tæp­ast er hægt að fjalla um Biden án þess að nefna aðkomu hans að tveim­ur sögu­fræg­ustu yf­ir­heyrsl­um banda­rísku dóms­mála­nefnd­ar­inn­ar yfir til­nefnd­um hæsta­rétt­ar­dómur­um.

Ann­ars veg­ar 1987, skömmu fyr­ir veik­ind­in, þegar hann stjórnaði yf­ir­heyrsl­um yfir Robert Bork, íhaldskurfi mikl­um að mati Edw­ards Kennedys og fleiri frjáls­lyndra demó­krata, sem for­dæmdu Bork harðlega. Hon­um var hafnað en Biden hampað fyr­ir að kom­ast lip­ur­lega frá verk­efn­inu.

Hins veg­ar 1991 þegar Clarence Thom­as var til­nefnd­ur í embættið, en hann var ásakaður um að hafa áreitt fyrr­ver­andi sam­starfs­konu sína, Anitu Hill, kyn­ferðis­lega.

Yf­ir­heyrsl­an var í beinni út­send­ingu á öll­um stærri sjón­varps­stöðvum Banda­ríkj­anna og þótti far­sa­kennd. Til þess var tekið að Biden var stund­um svo orðmarg­ur að Thom­as var bú­inn að stein­gleyma spurn­ing­unni þegar hann loks þagnaði.

Þótt marg­ir stæðu með Thom­as var afar um­deilt þegar Biden staðfesti til­nefn­ingu hans í embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara, sér­stak­lega urðu femín­ist­ar æfir. Thom­as gegn­ir embætt­inu enn þá.

Þótti vinsæll varaforseti

Hann var varaforseti Barack Obama og þótti nokkuð vinsæll meðal almennings.

Aldrei hefur almennilega legið fyrir hversu gott samband þeirra félaga var og hafa margir kunnugir sagt að Obama hafi beðið Biden um að víkja fyrir Hillary Clinton fyrir forsetakosningarnar 2016.

Á það ekki að hafa fallið vel í kramið hjá Biden.

Joe Biden ásamt Barack Obama.
Joe Biden ásamt Barack Obama. AFP/Emmanuel Dunand
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert