Peningarnir fossuðu inn um leið og Biden vék

11,5 milljónir Bandaríkjadala söfnuðust á einni klukkustund í gær.
11,5 milljónir Bandaríkjadala söfnuðust á einni klukkustund í gær. AFP

Peningarnir hrönnuðust inn til Demókrata í gær þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti vék úr framboði og Kamala Harris varaforseti gaf kost á sér. Aldrei hafa fleiri fjárframlög til Demókrata safnast í gegnum netið á einum degi.

Stuðningsmenn Demókrata gáfu flokknum í gær yfir 50 milljónir Bandaríkjadala (6,8 milljarða króna) en fjárhæðin byggist á talningu New York Times út frá gögnum á vef ActBlue, stærsta kosningahóps Demókrata.

Á klukkustundunum áður en Biden upplýsti um ákvörðun sína námu fjárframlögin um 200 þúsund dölum á klukkustund að meðaltali. En eftir að hann ákvað að víkja úr framboði námu framlögin tæplega 11,5 milljónum dala á einni klukkustund.

Stuðningsmenn höfðu fryst greiðslur

Þegar klukkan var gengin í tíu að staðartíma í austurhluta Bandaríkjanna í gærkvöldi (kl. 3 að íslenskum tíma) var dagurinn orðinn sá þriðji stærsti í sögu ActBlue.

Upphæðin á við öll fjárframlög sem veitt eru í gegnum vef ActBlue, ekki aðeins framlög til Biden eða Harris.

Aftur á móti greindi New York Times frá því fyrr í júlí að nokkrir fjársterkir stuðningsmenn ætluðu að frysta greiðslur upp á ríflega 90 milljónir Bandaríkjadala, en þá hafði Biden ekki vikið úr framboði.

Síðasta met var árið 2020, eftir að Ruth Bader Ginsburg hæstaréttardómari féll frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert