Setja Rússum stólinn fyrir dyrnar

Hermenn í mötuneyti herbúðanna í Bardufoss í Troms jólin 2021. …
Hermenn í mötuneyti herbúðanna í Bardufoss í Troms jólin 2021. Rússi með tengsl í innsta hring Pútíns keypti sumarbústaði þar skammt frá án þess að nokkur veitti því sérstaka athygli. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Norsk stjórnvöld leggja nú á ráðin um að reisa erlendum aðilum skorður við eign fasteigna í Noregi með það fyrir augum að draga úr hættu á að njósnað sé um hernaðarmannvirki eða -umsvif í landinu.

Líta Norðmenn þar til nágranna sinna í Finnlandi sem tekið hafa upp kerfi sem byggir á því að stjórnvöld samþykki fyrirhuguð fasteignakaup erlendra aðila áður en þau ganga í gegn auk þess sem það er nú til skoðunar í Finnlandi að banna rússneskum ríkisborgurum með öllu að eignast þar fasteignir.

Ráðuneyti dómsmála og viðbúnaðar í Noregi hefur staðfest við ríkisútvarpið NRK þar í landi að að ríkisstjórnin hafi fasteignamál erlendra aðila nú til skoðunar. „Berist hernum upplýsingar um að fasteignir séu notaðar með þeim hætti að ógn teljist við öryggi mannvirkja hans mun það geta haft í för með sér aðgerðir af hálfu yfirvalda,“ segir John-Erik Vika ráðuneytisstjóri við NRK.

Nefnd skilar tillögum

Segir hann þjóðina nú þurfa að búa sig undir nýjan öryggispólitískan veruleika í ljósi aukinnar hættu á njósnum Rússa í landinu.

Gerir dagblaðið Nationen einnig grein fyrir því að þegar með haustinu muni nefnd, sem hefur málið til skoðunar, skila af sér tillögum um aðgerðir sem ætlað er að sporna við njósnum sem fari í bága við norska þjóðarhagsmuni.

Muni aðgerðirnar gera rússneskum aðilum óhægara um vik að eiga fasteignir í landinu, einkum í námunda við hernaðarmannvirki og önnur mannvirki, borgaraleg, sem teljist þýðingarmikil í þjóðaröryggislegu tilliti.

Þrætuepli um árabil

Kaup Rússa á norskum fasteignum hafa verið þrætuepli um árabil og má sem dæmi nefna þegar rússnesk rétttrúnaðarkirkja skaut skyndilega upp kollinum skammt frá sjóherstöðinni Haakonsvern, skammt frá Bergen. Hafði húsnæði kirkjunnar verið keypt árið 2017 án þess að norsk yfirvöld veittu því sérstaka athygli.

Árið 2021, í mars, stöðvaði ríkisstjórn Ernu Solberg kaup rússneskra aðila á fyrirtækinu Bergen Engines, norður af borginni, en þar eru meðal annars framleiddar gastúrbínur til notkunar á stærri sjóför, þar á meðal herskip.

Það var svo í apríl á þessu ári sem norski fjölmiðillinn TV2 greindi frá því að Rússi með tengsl inn í innsta hring Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hefði fest kaup á sumarbústöðum skammt frá herflugstöðinni í Bardufoss og Heggelia-herbúðunum í Troms-fylki.

NRK

NRKII (loka landamærunum á Rússa)

NRKIII (samþykkja þurfi fasteignakaup fyrir fram)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert