Sex látnir eftir skotárás á hjúkrunarheimili

Hjúkrunarheimilið þar sem að sex manns létu lífið í skotárás …
Hjúkrunarheimilið þar sem að sex manns létu lífið í skotárás í Króatíu. AFP/Nikola Blazekovic

Sex manns létu lífið eftir skotárás á hjúkrunarheimili í Daruvar, Króatíu í dag. Fimm heimilismenn og einn starfsmaður létust þegar árásarmaðurinn, sem bar óskráð skotvopn, fór inn á hjúkrunarheimilið og hóf skothríð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Króatíu.

Árásarmaðurinn flúði vettvang en var handtekinn á kaffihúsi þar sem hann fannst með skotvopnið á sér. Nikola Milina, yfirmaður króatísku lögreglunnar, sagði að maðurinn hefði áður komist á sakaskrá fyrir að raska almannaheill og heimilisofbeldi.

Ekki vitað hver ástæðan er 

Ekki er vitað hver ástæðan á bak við árásina er, en Marin Piletic, félagsmálráðherra í Króatíu, sagði við fréttamenn í Daruvar að það ætti eftir að koma í ljós á næstu dögum.

Eftir árásina sagði Zoran Milanovic, forseti Króatíu, á samfélagsmiðlum að skotárásin væri villimannsleg og kallaði eftir því að meira yrði gert til að koma í veg fyrir ofbeldi í samfélaginu, þar á meðal strangara eftirlit með vopnaeign. 

Skotárásir eru sjaldgæfar í Króatíu og árásin í dag er ein sú versta í sögu landsins síðan það lýsti yfir sjálfstæði árið 1991. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert