Sprengjusveit kölluð að hóteli

Hammarby í Stokkhólmi. Talið var að sprengja hefði sprungið á …
Hammarby í Stokkhólmi. Talið var að sprengja hefði sprungið á íbúðahóteli þar í nótt þegar maður kveikti eld í anddyri þess, en svo reyndist ekki vera. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jordgubbe

Lögreglan í Stokkhólmi kallaði til sprengjusveit í kjölfar íkveikju á íbúðahóteli í Hammarby þar í borginni í nótt, en í fyrstu var talið að sprengja hefði sprungið þar. Svo reyndist þó ekki vera.

„Sá sem hér var að verki hellti niður áfengi, braut glas og kveikti í pappír í anddyri hótelsins og var þá í fyrstu talið að sprengja hefði sprungið þar, vegna hvells sem heyrðist,“ segir Robert Sennerdal, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, við sænska ríkisútvarpið SVT.

Leituðu af sér allan grun

Brunavarnakerfi hótelsins sendi frá sér boð á þriðja tímanum í nótt að sænskum tíma og slökktu viðbragðsaðilar eldinn auk þess að rýma íbúðir hótelsins, þar sem rúmlega hundrað gestir voru á fleti fyrir. Engan sakaði af völdum íkveikjunnar.

Eftir að sprengjusveitin hafði leitað af sér allan grun í byggingunni var gestum hleypt aftur inn og þeim takmörkunum á umferð í nágrenninu aflétt sem settar höfðu verið í nótt. Var þetta á ellefta tímanum í morgun að Svíþjóðartíma.

SVT

Sjöstadsbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert