Dönsk ungmenni leita meinta barnaperra uppi og berja þá

Danska lögreglan leitar manns sem talinn er tengjast aðgerðum hóps …
Danska lögreglan leitar manns sem talinn er tengjast aðgerðum hóps „barnaperraveiðimanna“. Ljósmynd/Danska lögreglan

Danska lögreglan hefur handtekið mann sem leitað hefur verið eftir í tengslum við sjálfskipaða „barnaperraveiðimenn“.

Frá þessu greinir lögreglan í Vestegnen nálægt Kaupmannahöfn á samfélagsmiðlinum X. Maðurinn er 24 ára og er sakaður um gróft ofbeldi og hótanir. 

Virðist hann hafa tekið þátt í líkamsárás þar sem meintur barnaperri hafi verið lokkaður og síðan laminn.

Færist í aukana

Lögreglan Danmörku vakti fyrr í mánuðinum athygli á „nýju fyrirbæri“, hún hefur tekið eftir nýrri hegðun á netinu þar sem hópar ungra drengja virðast í auknum mæli taka lögin í eigin hendur.

Oft eru þetta hópar sem leita uppi meinta barnaperra, ráðast á þá og niðurlægja þá, t.d. með því að birta myndskeið af árásinni á netinu.

„Hann heldur að hann sé að fara að hitta 14 ára barn og stunda kynlíf. Hér hittir hann drengina okkar,“ hefur TV2 eftir einum liðsmanna „Pedo Hunter Denmark“ sem er hópur slíkra veiðimanna.

Fjöldi manns hefur verið handtekinn og kærður vegna slíkra mála að undanförnu, að sögn lögreglu.

Réðust á 54 ára mann

Nokkrum dögum eftir að lögregla vakti athygli á þessu lýsti lögreglan í Vestegnen eftir manni sem er sagður hafa tekið þátt í líkamsárás við Voldgaden í Brøndby síðdegis 25. júní, en þá voru þrjú ungmenni grunuð um að ráðast á 54 ára mann.

Nú er maðurinn handtekinn og grunaður um líkamsárás, skrifar lögreglan á X.

Politiken hefur eftir lögreglunni í Vestegn að alls séu fimm grunaðir um tvö atvik sem tengjast þessu nýja fyrirbæri. Tveir þeirra eru taldir eiga beinan þátt í báðum árásum.

Hitt atvikið varð þremur dögum fyrr, en þá varð 38 ára karlmaður fyrir líkamsárás. Þrír hafa verið kærðir í því máli og einn er í gæsluvarðhaldi.

Einnig sést í Noregi

Þessi hegðun virðist ekki einskorðast við Danmörku og hefur orðið æ algengari á öðrum Norðurlöndum.

Í júní var t.d. 14 ára „barnaperraveiðimaður“ í Noregi kærður fyrir tilraun til manndráps.

Skömmu síðar deildi danskur hópur sjálfskipaðra laganna varða myndskeiði af sínu fyrsta fórnarlambi, samkvæmt umfjöllun Information.

„First hunt“ skrifaði hópurinn á ensku, eða „fyrsta veiðin“ á íslensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert