Leiðir í könnunum og hjá veðbönkum

Trump leiðir í fyrstu könnun eftir að Harris tilkynnti framboð …
Trump leiðir í fyrstu könnun eftir að Harris tilkynnti framboð sitt. AFP/Brendan Smialowski

Donald Trump forsetaframbjóðandi er talsvert líklegri en Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, til þess að vinna forsetakosningarnar samkvæmt veðbönkum. Hann leiðir líka í nýjustu skoðanakönnunum.

RealClear Politics er búið að taka saman meðaltal veðbanka og samkvæmt þeim eru sigurlíkur Donalds Trumps 58,4% á sama tíma og sigurlíkur Kamölu Harris eru 32,7%.

Sigurlíkur Kamölu Harris eru þó umtalsvert meiri samkvæmt veðbönkum heldur en sigurlíkur Bidens voru orðnar.

Kamala Harris ávarpaði kosningateymi sitt í gær.
Kamala Harris ávarpaði kosningateymi sitt í gær. AFP/Erin Schaff

Trump leiðir í fyrstu könnun

Kamala Harris, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, virðist hafa náð að tryggja sér stuðning nógu margra kjör­manna Demó­krata­flokks­ins og má því gera ráð fyr­ir að hún verði útnefnd for­seta­frambjóðandi flokks­ins. 

Samkvæmt RealClear Politics er aðeins ein könnun sem hefur verið gerð í kjölfar þess að Biden dró framboð sitt til baka og Harris tilkynnti framboð, þann 21. júlí. Það er könnun Morning Consult og þar mælist Trump með tveggja prósentustiga forskot á landsvísu.

J.D. Vance, varaforsetaframbjóðandi Trumps, á kosningafundi í gær.
J.D. Vance, varaforsetaframbjóðandi Trumps, á kosningafundi í gær. AFP/Getty Images/Alex Wong

Quinnipiac gerði könnun dagana 19.-21. júlí og þá mældist Trump einnig með jafn mikið forskot á Harris. Sömu daga lét Forbes gera fyrir sig könnun og mældist þá Trump með sex prósentustiga forskot gegn Harris.

Eðli málsins samkvæmt hafa fáar kannanir verið gerðar sem mæla fylgi Trumps og Harris. Má gera ráð fyrir því að í þessari viku og næstu komi skýrari mynd á það hvar leikar standa, en rúmlega 100 dagar eru til kosninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert