Menendez segir af sér

Menendez sést hér yfirgefa dómsalinn í New York-borg í síðustu …
Menendez sést hér yfirgefa dómsalinn í New York-borg í síðustu viku þar sem hann var dæmdur sekur. AFP/ADAM GRAY

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Robert Menendez tilkynnti fyrr í kvöld að hann hygðist segja af sér í næsta mánuði, en hann var dæmdur í síðustu viku í fangelsi fyrir mútuþægni.

Menendez, sem situr fyrir Demókrataflokkinn í New Jersey-ríki, tilkynnti um ákvörðun sína í bréfi til Phil Murphy ríkisstjóra, en Murphy fær það hlutverk að skipa eftirmann Menendez, sem mun sitja þar til kjörtímabili hans lýkur í janúar nk.

Menendez var fyrst kjörinn til öldungadeildarinnar árið 2006, en lengi hefur leikið grunur um spillingu í kringum hann. Mál Menendez komst svo í hámæli síðasta haust þegar hann var ákærður fyrir ýmsar sakir, meðal annars þær að hafa þegið mútur í skiptum fyrir að greiða fyrir viðskiptum kaupsýslumanna frá Egyptalandi og Katar. 

Refsing Menendez verður ákveðin 29. október nk., en hann gæti átt yfir höfði sér langan fangelsisdóm. Menendez hefur haldið fram sakleysi sínu, og sagði hann í bréfi sínu til Murphy að hann hygðist áfrýja máli sínu. Hann vildi þó ekki að öldungadeildin drægist inn í mál hans eða að það myndi trufla störf deildarinnar.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í deildinni, hafði áður skorað á Menendez að segja sæti sínu lausu, en ellegar var talið að deildin myndi fljótlega greiða atkvæði um að reka hann úr deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert