Emmanuel Macron Frakklandsforseti vill bíða með stjórnarmyndunarviðræður þar til Ólympíuleikunum í París lýkur 11. ágúst.
Rúmar tvær vikur eru frá því að seinni umferð þingkosninganna í Frakklandi lauk. Nýja lýðfylkingin, bandalag vinstriflokka, hlaut flest þingsæti en ekki hreinan meirihluta.
„Að sjálfsögðu þurfum við að einblína á [Ólympíu]leikana þar til um miðjan ágúst,“ sagði Macron í viðtali við France 2.
„Þaðan í frá verður það á minni ábyrgð að nefna nýjan forsætisráðherra... sem hefur sem breiðasta stuðninginn.“
Fyrr í dag lagði Nýja lýðfylkingin til að Lucie Castets yrði næsti forsætisráðherra Frakka.
Ekki hefur farið mikið fyrir Castets innan frönsku stjórnmálanna, en hún er hagfræðingur að mennt.
Í samtali við AFP-fréttaveituna sagðist hin 37 ára gamla Castets hafa samþykkt tilnefninguna „með mikilli auðmýkt, en einnig mikilli sannfæringu“.
Hún sagði að það yrði forgangsverkefni að afnema umdeilda lagabreytingu Macrons um hækkun lífeyrisaldurs.