Ákæra banatilræðið við Rushdie sem hryðjuverk

Hadi Matar er 26 ára Bandaríkjamaður af líbönskum uppruna.
Hadi Matar er 26 ára Bandaríkjamaður af líbönskum uppruna. AFP/Angela Weiss

Hadi Matar, 26 ára Bandaríkjamaður af líbönskum uppruna, hefur verið ákærður fyrir banatilræðið sem hann sýndi rithöfundinum Salman Rushdie árið 2022.

Ákæran er í þremur liðum, en Matar er m.a. ákærður fyrir að hafa með árásinni framið hryðjuverk til stuðnings hryðjuverkasamtökunum Hisbollah í Líbanon, fyrir að hafa framið hryðjuverk sem nái yfir landamæra ríkja, og fyrir að hafa veitt Hisbollah-samtökunum stuðning í verki.

Rushdie missti sjón á öðru auga og hreyfigetu annarrar handar eftir að Matar veittist að honum með hnífi, þegar Rushdie var að halda fyrirlestur í New York-ríki.

Matar hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því að hann framdi árásina, en mál hans verður tekið fyrir í október. 

Sakaður um hryðjuverk

Í yfirlýsingu frá alríkislögreglu Bandaríkjanna segir að Matar hafi framkvæmt hryðjuverk í nafni Hisbollah-samtakanna og reynt að framfylgja líflátsskipun Khomeinis æðstaklerks, frá árinu 1989. 

Khomeini, fyrrverandi erkiklerkur Írans, fyrirskipaði dauða Rushdie það ár eftir að rithöfundurinn gaf út bókina Söngvar Satans, en Rushdie var sakaður um guðlast vegna innihalds bókarinnar sem olli fjaðrafoki í Mið-Austurlöndum.

Rushdie missti sjón á öðru auga og hreyfigetu annarrar handar …
Rushdie missti sjón á öðru auga og hreyfigetu annarrar handar eftir að Matar veittist að honum með hnífi. AFP/Tobias Schwarz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert