Fót rak á land eftir árás hvítháfs

Eftir árásina hefur McKenzie og fjölskylda safnað um 6,7 milljónum …
Eftir árásina hefur McKenzie og fjölskylda safnað um 6,7 milljónum króna á GoFundMe. Ljósmynd/Colourbox

Fót af brimbrettakappa rak á land í Ástralíu í gær eftir að hákarl hafði ráðist á hann.

Brimbrettakappinn Kai McKenzie fór út á öldurnar út frá ströndum Port Macquarie í gær þegar hann var bitinn af þriggja metra löngum hvítháfi. 

Honum tókst þó að bruna á brettinu sínu í land og svo heppilega vildi til að lögreglumaður, sem var þó ekki á vakt, náði að stöðva blæðingarnar, að sögn yfirvalda.

Fót McKenzie rak land á skömmu síðar þar sem vegfarendur tóku hann og settu á klaka áður en útlimurinn var síðan fluttur á sjúkrahús, þar sem læknar meta nú þær aðgerðir sem hægt er að grípa til.

Notaði hundabeisli til að stöðva blæðingu

McKenzie er þungt haldinn, að sögn viðbragðsaðila, sem þakka lögreglumanninum, sem ekki var á vakt, fyrir skjót viðbrögð.

„Hann notaði hundabeislið sem æðaklemmu... og í raun bjargaði lífi hans þar til sjúkraliðar mættu þangað,“ segir sjúkraflutningakonan Kirran Mowbray.

Eftir árásina hefur McKenzie og fjölskylda safnað um 6,7 milljónum króna á GoFundMe. Hákarlaárásir eru algengari í Ástralíu en í öllum öðrum lönndum að Bandaríkjunum undanskildum, en þær eru þó sjaldan banvænar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert