Franskir dópsalar tilbúnir fyrir Ólymíuleikana

Öryggisgæsla verður hert til muna í París vegna Ólympíuleikanna.
Öryggisgæsla verður hert til muna í París vegna Ólympíuleikanna. AFP/Natalia Kolesnikova

Franskir dópsalar segjast reiðubúnir fyrir aukin viðskipti á Ólympíuleikunum sem hefjast á föstudaginn, en AFP-fréttaveitan ræddi við nokkra slíka.

Segjast þeir lofa stöðugu framboði efna, en vara við því að verð kunni að hækka og biðtími eftir afhendingu fíkniefna geti orðið lengri en venja þykir, sökum mikillar öryggisgæslu vegna leikanna.

„Við erum alltaf tilbúin í þessum bransa,“ sagði einn dópsali við AFP, og tók þannig undir orð Emmanuels Macrons, forseta Frakklands, um að franska þjóðin væri öll í stakk búin fyrir leikana.

Halda viðskiptavinum upplýstum

Í aðdraganda leikanna hafa fíkniefnasalar haldið viðskiptavinum sínum upplýstum um stöðu mála með því hverju megi búast við þegar leikarnir standa yfir.

„Verð á þjónustu okkar verður aðlagað að erfiðum aðstæðum í umferðinni og vegna mikillar eftirspurnar,“ skrifaði einn dópsali viðskiptavinum sínum.

Annar varaði við því að að lögreglan yrði a varðbergi og því væri ekki hægt að stunda viðskiptin á opinberum vettvangi, en sá þriðji sagði viðskiptavinum sínum að þrátt fyrir Ólympíuleikanna yrði þjónustan með sama sniði og áður.

Áætlað er að allt að 45.000 lögreglumenn sjái um gæslu á götum Parísar þegar leikarnir standa yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert