Fundu kampavínsbirgðir við strendur Svíþjóðar

Innsigldar vatnsflöskur úr leir gáfu köfurunum hugmynd um að skipbrotið …
Innsigldar vatnsflöskur úr leir gáfu köfurunum hugmynd um að skipbrotið mætti rekja til síðari hluta 19. aldar. mbl.is/Colourbox

Pólskir kafarar hafa fundið flak skips frá 19. öld sem hafði að geyma um 100 óopnaðar kampavínsflöskur. 

Flakið fannst við suðurströnd eyjunnar Eyland í Svíþjóð og ásamt kampavíninu fundu kafararnir vatnsflöskur og postulín. 

„Flakið er barmafullt af kampavínskössum, vatnsflöskum og postulíni,“ sagði Tomasz Stachuar, leiðtogi kafaranna.

Tilviljanakenndur fundur 

Stachuar segir forvitnina eina hafa leitt hópinn að sjávarbotninum þar sem flak skipsins fannst og að fundurinn hafi verið tilviljanakenndur. 

Innsigldar vatnsflöskur úr leir gáfu köfurunum hugmynd um að flakið mætti rekja til síðari hluta 19. aldar. 

Út frá myndum sem kafararnir tóku af innsigli vatnsflasknanna mátti greina nafn þýska fyrirtækisins Selters og stemmdi vörumerki fyrirtækisins við vörumerki þess á síðari hluta 19. aldar. 

Kafararnir hafa gert yfirvöldum í Svíþjóð viðvart um fundinn, en segja að það muni taka einhvern tíma þar til að hægt verði draga hann upp úr sjónum. 

„Þetta hefur legið þarna 170 ár, þannig þetta má liggja þarna í ár til viðbótar, þá höfum við meiri tíma til að undirbúa okkur,“ sagði Stachura. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert